Fimmtudagur 13. desember 2012

Vefþjóðviljinn 348. tbl. 16. árg.

Nú skýrist óðum merking hugtakanna „aukið persónukjör“ og „beint lýðræði“. 

Þeir sem helst hafa látið með þessi baráttumál eru iðnir við að stofna stjórnmálaflokka þessa dagana, Dögun, Bjarta framtíð, Samstöðu og Píratapartíið, svo nokkrir séu nefndir.

Og auðvitað bjóða þeir upp á sýnikennslu í persónukjöri og beinu lýðræði.

Svo virðist sem persónukjör hjá þessum flokkum felist í því að ákveðnar persónur velji sjálfar sig á framboðslista. Öllu meira verður persónukjörið vissulega ekki en að viðkomandi persóna velji sjálfa sig persónulega á lista og tilkynni jafnvel um það á persónulegri fésbókarsíðu sinni án þess að aðrir hafi hugmynd um að það standi til. Og beinna verður lýðræðið ekki heldur, þetta er alveg milliliðalaust val á framboðslista, ég vel mig og þú þig.