Miðvikudagur 12. desember 2012

Vefþjóðviljinn 347. tbl. 16.árg.

Í dag var þess minnst á Íslandi og í Noregi að hundrað ár eru liðin frá fæðingu leikskáldsins Thorbjörns Egners, en vandfundinn mun Íslendingur undir sextugu sem ekki hefur átt ótal ánægjustundir með Kasper, Jesper og Jónatani, Mikka refi, húsamúsinni og Baktusi. Þá munu þeir einnig vera fáir sem ekki gætu umhugsunarlaust farið með nokkrar setningar úr leikritum Egners. Hættu að þvaðra um hann afa þinn. Ja fussum svei ja fussum svei, ég fyllist gremju og sorg. Aðeins bara kíló pipar. Hér með tökum við ykkur fasta, alla þrjá. Að ógleymdu hvössu svari Kaspers við því: Það var svei mér gremjulegt.

Meðal þess sem oftast er vitnað í, er fyrsta grein í lögunum sem Marteinn skógarmús samdi og samþykkt voru á fundi allra dýranna í Hálsaskógi. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Þessi ágæta regla ratar í greinar og stjórnmálaræður, blogg og athugasemdir. Ef við bara hefðum lögin úr Hálsaskógi, segja margir, þá þyrftum við ekki aðrar reglur. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Ekkert dýr má borða annað dýr. Í þessar tvær greinar er oft vitnað.

Lögin í Hálsaskógi voru, eins og Bangsapabbi benti á, ágæt lög. En þau voru þrjár greinar en ekki tvær. Þriðja greinin var líka fín. Sá sem er latur og nennir ekki afla sér matar má ekki taka mat frá öðrum. 

Þegar Íslendingar einfalda hjá sér lagasafnið og skipta út núgildandi lögum fyrir lögin úr Hálsaskógi, þá ættu þeir endilega að muna eftir að hafa þriðju greinina líka með. Og af henni má ráða svo margt annað. Þá mun hver og einn taka ríkari ábyrgð á eigin velferð en treysta minna á að fá skerf frá því sem aðrir hafa aflað sér. Og þá munu þeir komast að því sama og Mikki refur, að þær kökur sem borgaðar eru fullu verði bragðast miklu betur en þær sem eru stolnar.