Föstudagur 7. desember 2012

Vefþjóðviljinn 342. tbl. 16.árg.

Nú eru næringarfræðingar, sætindainnflytjendur, kaupmenn og fleiri komnir í hár saman yfir vörugjöldum. Mun nýtt frumvarp um vörugjöld auka sykurneyslu? Eða kannski minnka glúkósaátið? Eykst gosdrykkja? Borða menn meira eða minna súkkulaði? Fréttamenn hafa mikinn áhuga á málinu.

Hér er komið skýrt dæmi um misskilning manna á hlutverki ríkisins og misskilningi á hlutverki skatta og gjalda.

Skattar hafa það hlutverk að afla hinu opinbera tekna, svo það geti sinnt lögákveðnu hlutverki sínu. Það á alls ekki að nota skatta til að fá fólk til að kaupa sér frekar agúrku og tómat en vindil og rauðvínsglas. Ríkið á einfaldlega að leyfa fullorðnu fólki að taka eigin ákvarðanir um líf sitt, og þar með á fólk að vera í friði fyrir stjórnsemi ríkisins þegar kemur að því að ákveða neyslu sína.

Sá, sem telur að ríkið megi skipa fólki til að borða frekar „hollan“ mat en „óhollan“, hann mun aldrei hætta. Jafnvel þótt hann næði endanlegum sigri og upp yrði tekinn allsherjar ríkismatseðill samsettur af næringarfræðingum og fleiri fagmönnum, þá myndi forræðismaðurinn ekki hætta. Næst myndi hann beita lögum til að fá fólk til að setja upp húfu og trefil í frosti.

Og hvers vegna ekki? Þeir sem fá lungnabólgu, hvert snúa þeir sér til að fá lyf og læknisaðstoð? Jú var það ekki, til ríkisins. Er þá ríkinu ekki heimilt að skipta sér af klæðnaði manna í kuldanum? Eru rökin fyrir tóbakshernaðinum ekki oft þau, að ríkið beri svo mikinn kostnað af meðhöndlun þeirra sem hafi spillt heilsu sinni með reykingum?

Og auðvitað yrði ekki gengið langt í húfu- og treflatilskipununum. Menn mættu ráða lit og sniði, jafnvel mynstri. Nema auðvitað einhver sniðin yrðu sérstaklega eftirsótt og ekki á allra færi að nálgast þau. Það gæti auðvitað spillt sjálfsmynd þeirra sem ekki fengju vinsælu sniðin.

En um vanda þeirra, sem þjást af skerti sjálfsmynd af því þeir geta ekki eignast vinsælustu húfurnar, verður einmitt fjallað í vandaðri sænskri heimildamyndaröð, Hvers vegna skert sjálfsmynd?, sem Ríkisútvarpið hefur fest kaup á og verður á dagskrá fram að næstu kosningum.