Laugardagur 8. desember 2012

Vefþjóðviljinn 343. tbl. 16.árg.

Vefþjóðviljinn mann ekki alveg hvaða orð var notað síðast um þetta. Var það samræðustjórnmál? Faglegt ferli? Burt með átakastjórnmálin? Upp úr skotgröfunum?

En hvað um það þá er „sátt“ nýjasta hugtakið yfir þetta. Nú vilja ansi margir sem hafa lítið fram að færa „skapa sátt“. Og auðvitað er það þannig að þeir sem hafa enga sannfæringu og enn lítilfjörlegri hugsjónir eiga auðvelt með að sætta sig við hvað sem er og skilja ekkert í því að aðrir vilji ekki taka þátt í því að „skapa sátt“.

Það má kannski til glöggvunar nefna tvö mál þar sem tókst að „skapa sátt“ meðal flokkanna sem störfuðu á alþingi. 

Annars vegar hið mikla sáttamál „jöfnun fæðingarorlofs“ árið 2001. Jöfnunin fólst í því að hækka mánaðarlegt fæðingarorlof auðmanna í milljónir á mánuði en lækka fæðingarorlof heimavinnandi. Áður en „jöfnunin“ fór fram fengu allir jafnt.  Löngu fyrir bankahrun var kerfið svo sprungið í tætlur vegna ofboðslegt kostnaðar og sett var þak á þessar félagslegu greiðslur til hátekjumanna.

Hins vegar er Harpan. Svo mikil var sáttin að það voru aldrei greidd atkvæði á Alþingi um þessa tugmilljarða skuldbindingu skattgreiðenda. Aldrei! Þegar hið opinbera átti svo kost á því eftir bankahrunið að láta gott heita og losa skattgreiðendur undan þessari ánauð var „sköpuð sátt“ um að halda málinu til streitu.

Það er almennt ekki gott að mál sem þessi renni gagnrýnislaust í gegnum þingið, jafnvel án þess að menn þurfi að gera grein fyrir afstöðu sinni í atkvæðagreiðslu. Það er vont að kæfa gagnrýna umræðu með „sátt“.