Miðvikudagur 5. desember 2012

Vefþjóðviljinn 340. tbl. 16.árg.

Þessir þingmenn Hreyfingarinnar, það er nú meira fólkið.

Svona lýsir Margrét Tryggvadóttir sér á heimasíðu sinni: „Margrét er íbúi á plánetunni jörð og einn af atvinnupönkurum Hreyfingarinnar á Alþingi.“

Þessa dagana er deilt um framgang umdeildra mála á alþingi. Stjórnarandstaðan hefur í rúma tvo daga rætt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, mikilvægasta og afdrifaríkasta lagafrumvarp hvers árs. Stjórnarliðar segja að umræðan sé teygð til að tefja önnur mál stjórnarmeirihlutans um nokkra daga.

Og hvað finnst Margréti Tryggvadóttur um það?

Þegar umræðan hafði staðið í tvo daga var hún alveg búin að fá nóg. Grátklökk sagði hún í ræðu að þingmenn réðu ekki við starf sitt. Á heimasíðu sína skrifar hún: 

„Þjóðþrifamál hafa ekki komist á dagskrá eða ekki verið afgreidd vegna þess að pontan var hertekin af þessu liði sem virðir ekki lýðræðislega kjörinn meirihluta…“ 

Og hún bætir við, sárhneyksluð, að „vegna málþófs var ekki hægt að mæla fyrir tekjuhlutanum á föstudaginn og koma skattamálunum til nefndar og umsagna. Það finnst mér ómerkilegt.”

Þetta er sem sagt pönkarinn. Atvinnupönkarinn. Þingmál ríkisstjórnarinnar tefjast um tvo daga. Það var hreinlega „ekki hægt að mæla fyrir tekjuhlutanum á föstudaginn“. Og það var ekki heldur hægt að „koma skattamálunum til nefndar og umsagna.“ 

Það er eitthvert „lið“ búið að „hertaka pontuna“. Þeir tefja meirihlutann. 

Það finnst svona atvinnupönkara „ómerkilegt“.

Margrét Tryggvadóttir pönkari er orðinn svo þægur þjónn stjórnvalda að hún örvilnast þegar stjórnarandstaða tefur mál í tvo eða þrjá daga. Hún er orðin sami pönkarinn og Birgitta Jónsdóttir, leiðtogi Pírata, sem krafðist þess að hennar eigin tölvugögn yrðu trúnaðarmál af því að hún væri þingmaður og þeir þyrftu friðhelgi, ólíkt óbreyttum borgurum.

Og hvernig er með nýja framboðið, „Bjarta framtíð“? Það virðast vera pönkarar af sömu tegund. Flokkurinn boðar nýtt lýðræði og nýja tíma, vald fólksins en ekki foringjanna. Svo kemur öðru hverju tilkynning um að þessi eða hinn eigi að leiða lista flokksins í þessu eða hinu kjördæminu. Og hvernig var hann valinn? Var prófkjör? Gátu stuðningsmenn flokksins valið milli efnilegra frambjóðenda. Nei nei, Guðmundur Steingrímsson hringir í einhverja menn og býður þeim sæti. Á lista flokksins sem er að fara að berjast gegn foringjaræðinu.

Þeir verða fínir á næsta þingi: pönkararnir í Hreyfingunni sem þá mun heita Dögun, kvartandi yfir þingmönnum sem tefja framgang stjórnarfrumvarpa, Píratinn Birgitta sem heimtar ítrustu leynd um eigin tölvugögn en opinn aðgang að öllum öðrum upplýsingum, og svo þeir hjá Bjartri framtíð, allir handvaldir af Guðmundi Steingrímssyni til að berjast fyrir lýðræði gegn foringjaræði.