Vefþjóðviljinn 339. tbl. 16.árg.
Þá er sami kórinn byrjaður að syngja niðri í þingi og á umræðuvefjum stjórnarsinna. „Málþóf, málþóf“ æpa menn, og virðast halda að þeir hafi staðið einhvern að glæp.
Staðreyndin er sú að jafnvel þótt rétt væri, að stjórnarandstaðan væri farin að beita málþófi, þá væri ekkert að því. Málþóf er í lýðræðisríkjum viðurkennd leið minnihlutans til að hafa áhrif á gang mála. Málþóf er ekki „afskræming lýðræðisins“ eða „misnotkun á málfrelsinu“, heldur viðurkennd leið til að tempra vald meirihlutans. Með því er ekki átt við að eðlilegt sé að meirihluti geti aldrei komið máli í gegn, heldur það að hann ræður ekki einn öllu, þrátt fyrir meirihlutann. Þess vegna er viðurkennt að minnihluti, sem óbilgjarn meirihluti hyggst valta yfir í öllum málum, megi beita „málþófi“ til þess að gæta hagsmuna sinna.
Á þessu kjörtímabili hefur verið skemmtilegt að fylgjast með opinberri umræðu sem sífellt hefur orðið þegar stjórnarandstaðan hefur leyft sér að ræða þau mál sem ríkisstjórnin hefur borið inn í þingið, allt of seint. Sömu álitsgjafarnir og bloggaranir taka strax undir með stjórnarliðum og æpa „málþóf“. Þetta eru yfirleitt sömu menn og eru vanir að tala gegn flokksræði, ráðherraræði og foringjaræði, og þykjast talsmenn samvinnu og samstarfs. Þegar vinstristjórnin vill ná málum í gegn umræðulaust, þá gleyma þeir strax öllum orðunum sínum um ráðherraræðið sem vill þjösnast á alþingi.
Stjórnarandstaðan þarf ekkert að skammast sín fyrir að beita málþófi komi til þess. Það væri lögmætt vopn hennar gegn yfirgangi þeirra sem engu vilja eira og stjórnast af heift út í allt og alla.