Mánudagur 3. desember 2012

Vefþjóðviljinn 338. tbl. 16.árg.

Það er merkilegt hvernig minni fjölmiðlamanna og álitsgjafa er valkvætt. Sumu tönnlast þeir á aftur og aftur, oft langt umfram tilefni og oft virðist þeirra eigin misskilningur og misminni ráða meiru um frásögnina heldur en það sem raunverulega gerðist. 

En sumu virðast þeir gleyma jafnskjótt og það gerist.

Um daginn fór fram prófkjör á vegum Samfylkingarinnar í Reykjavík. Um framkvæmd þess urðu miklar deilur og stór orð féllu. Mörghundruð manns voru strikuð út af kjörskrá öskömmu fyrir prófkjörið og fengu ekki að neyta atkvæðisréttar. Þetta voru félagsmenn í Rósinni, einu aðildarfélagi Samfylkingarinnar. 

Forsvarsmenn Rósarinnar höfðu um þetta stór orð. En hvað hefur gerst í málinu síðan? Verður prófkjörið endurtekið? Var fólkið réttilega tekið af kjörskrá? Eða var fjöldi manns sviptur atkvæðisrétti sem hann átti að hafa? Varla lýkur málinu þegjandi og hljóðalaust við það að menn verða ánægðir með hvernig raðaðist í sæti í prófkjörinu. Annað hvort voru menn réttilega teknir af kjörskrá eða ekki. Hver var niðurstaðan þar? Samfylkingin er stór flokkur og fer fyrir ríkisstjórn. Hvers vegna hafa fjölmiðlar ekkert fylgst með málinu? Ætli þeir hefðu gleymt því jafnfljótt ef það hefði  komið upp innan einhvers annars flokks?