Helgarsprokið 25. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 330. tbl. 16. árg.

Bjarni Már Gylfason hagfræðingur segir frá því í grein á viðskiptavef mbl.is af að stjórnvöld í Danmörku hafi ákveðið að leggja af umdeildan fituskatt sem lagður var á fyrir rúmu ári. Markmið með skattinum var að hafa áhrif á neyslu fólks og vinna gegn vaxandi offitu. Því til viðbótar hafi hugmyndir um nýjan sykurskatt þar í landi verið lagðar til hliðar. Bjarni segir að helsta ástæðan fyrir þessu er að ekki tókst að stýra neyslunni með þeim hætti sem til stóð auk þess sem skattlagningin var flókin og kostnaðarsöm, bæði fyrir skattayfirvöld og greiðendur skattsins.

Svo skrifar Bjarni: 

Um þessar mundir undirbúa íslensk stjórnvöld stóraukna skattlagningu á matvæli undir því yfirskyni að ráðast gegn offituvandanum og bæta lýðheilsu. Þetta á að gera með því að skattleggja sykraðar matvörur um 800 m.kr. til viðbótar við 2.200 milljónir sem þegar eru lagðar á matvæli, einkum drykkjarvörur og sælgæti. Langstærsti hluti þessarar skattlagningar mun beinast að innlendri framleiðslu en minnihluti að innfluttum vörum. Þolendur aukinnar skattlagningar eru því helst innlendir framleiðendur og auðvitað íslenskir neytendur. Hér er um að ræða ríflega 35% hækkun á skattlagningu. 

Bjarni bendir á að almennt séu stjórnvöld í nágrannalöndunum ekki að leggja á ráðin um aukna sykurskatta líkt og hér og engin ástæða sé til að ætla að slík skattlagning hafi meiri áhrif hér en annars staðar.

Engin ástæða er til að ætla að sértækir skattar á matvæli geti stjórnað neyslu hér frekar en í Danmörku. Full ástæða er hins vegar til að ætla að skaðsemi og vandamál við slíka skattlagningu séu sambærileg. Þetta leiðir hugann að því hvert sé raunverulegt markmið íslenskra stjórnvalda. Ef bætt lýðheilsa er raunverulegt markmið mæla sérfræðingar WHO einkum með því unnið sé að því að draga úr salti , transfitu og mettaðri fitu í matvælum. Í nágrannalöndum okkar er helst rætt um mikilvægi víðtækrar samvinnu matvælaframleiðenda og stjórnvalda við að ná tökum á vandanum og stuðla að heilbrigðu mataræði. Aðeins á Íslandi er nú rætt um sykurskatta í þessu samhengi.

Bjarni bendir svo á að sykurneysla Íslendinga hafi dregist saman undanfarna áratugi um leið og líkamsþyngt þeirra hafi aukist.

Ekki skal gera lítið úr vandamálum tengdum offitu. Full ástæða er til að vinna að bættu mataræði og lýðheilsu og íslenskir matvælaframleiðendur hafa þróað vöruframboð sitt mikið síðustu ár með það fyrir augum að draga úr salti, sykri og óhollri fitu. Raunar hefur sykurneysla landsmanna dregist jafnt og þétt saman síðustu áratugi á sama tíma og líkamsþyngd hefur aukist. Skýringin á því liggur í öðru en sykurneyslu. Sértækir skattar á sykraðar vörur munu ekki draga úr offitu hér á landi frekar en annarsstaðar.