Laugardagur 24. nóvember 2012

Vefþjóðviljinn 329. tbl. 16. árg. 

Það þarf að leiðrétta misskilning sem er í gangi í landinu. Sumir halda að í landinu sé stjórnarandstaða, sem reynir að berjast gegn vinstristjórninni og hindra einhver af skemmdarverkum hennar. 

En svo er ekki.

Á fimmtudaginn lauk til dæmis fyrstu umræðu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá Íslands. Umræðan hafði farið fram á þingfundum þriggja daga, ásamt auðvitað mörgum öðrum málum sem runnu baráttulaust í gegn.

Ríkisstjórnin og æsingamenn í kringum hana eru að reyna að eyðileggja stjórnskipun landsins. Ekki vegna þess að á því sé nein þörf, heldur líklega fremur af einhverri sálfræðilegri þörf eftir bankahrunið. Ekki breyting á einni eða tveimur greinum, nei öllu skal umbylt umbyltingarinnar vegna. 

Og eftir þrjá daga hefur stjórnarandstaðan ekki meira úthald. Þingmenn hennar mega auðvitað ekki vera að þessu. Þeir þurfa að vera í símanum vegna prófkjörs og blogga um eigin dugnað. 

Stjórnarandstaðan á þinginu er að verða eins máttlaus og í borgarstjórn Reykjavíkur. Einstaka þingmaður vill berjast af einurð, einn og einn borgarfulltrúi líka, en þeir eru undantekning. Teknókratarnir leggja línurnar.

Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn helst alls ekki viljað berjast við vinstrimennina. Það er svo óvinsælt, halda þingmennirnir þegar þeir lesa um sig óhróður á netinu. 

Vorið 2007 héldu sjálfstæðismenn að þeir hefðu fundið snilldarráð. Fjölmiðlarnir og álitsgjafarnir og prófessorarnir styðja flestir Samfylkinguna. Ef Sjálfstæðisflokkurinn fer bara í stjórn með Samfylkingunni þá hætta þeir auðvitað að níða Sjálfstæðisflokkinn niður. 

Og síðan hefur Sjálfstæðisflokknum verið kastað frá völdum hjá ríki og borg. Núverandi kynslóð forystumanna Sjálfstæðisflokksins virðist enn halda að því verði snúið við með uppgjöf og samræðustjórnmálum. Á þinginu endist baráttan í örfáa daga og þá er samið um „lok umræðunnar“. Í Reykjavíkurborg tók borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins að sér að vera forseti borgarstjórnar fyrir Jón Gnarr og Dag Eggertsson