Vefþjóðviljinn 322. tbl. 16. árg.
Af og til skýtur sú hugmynd upp kollinum að sjóðsfélagar í sameignarlífeyrissjóðum eigi að kjósa stjórn þeirra. Er jafnvel lagt til að Alþingi hlutist til um þetta. Og auðvitað hljómar það undarlega að það séu einhverjir aðrir en eigendur sjóðanna skipi stjórnir þeirra.
Um árabil hafa félagar í Lífeyrissjóði verkfræðinga kosið stjórnir sjóðsins, en með fremur rýrum afrakstri fyrir sjóðsfélaga. Þannig að þótt það kunni að hljóma vel þá tryggir „sjóðsfélagalýðræði“ ekki góða ávöxtun, ekki fremur en nokkur annar hlutur. Við fremur slaka ávöxtun hafa svo bæst slagsmál milli kynslóða þar sem meirihluti á félagsfundum hefur fengið sitt fram en hinir geta bara huggað sig við að hafa tekið þátt í „sjóðsfélagalýðræði“ og sett sumarbústaðinn á sölu til að komast þó til Kanarí.
Vandinn við íslenska lífeyriskerfið er miklu fremur sá að lengstum áttu launþegar lítið val um í hvaða sjóði þeir ávöxtuðu lífeyri sinn. Ef það valfrelsi væri að fullu tryggt þyrfti ekki frekari afskipti af samþykktum sjóðanna um hvernig þeir velja í stjórnir sínar.
Þá hefðu menn einfaldlega val um hvort þeir væru í sjóði þar sem allir stjórnarmenn væru valdir í kosningu sjóðsfélaga með kerfinu einn maður eitt atkvæði, kerfinu atkvæði í hlutfalli við réttindi, kerfinu atkvæði í hlutfalli við iðgjöld síðasta árs eða hvaðeina sem mönnum kann að detta í hug til að geta kallað hlutina lýðræðislega.
En sem fyrr segir tryggir engin leið að ávöxtun verði ávallt góð.