Mánudagur 29. október 2012

Vefþjóðviljinn 303. tbl. 16. árg.

Í febrúar 1998 vitnaði Vefþjóðviljinn í snaggaralega færslu á heimasíðu Valdimars Kristinssonar hagfræðings. Þar sagði Valdimar:

Í júní sl. var auglýst eftir fólki til starfa á Alþingi. Mjög gott vald á íslenskri tungu var áskilið. Ennfremur var góð kunnátta í ensku og einu Norðurlandamáli talin æskileg. Þá var sérstaklega tekið fram að umsækjendur yrðu að geta starfað sjálfstætt og unnið undir álagi. Að lokum var þess getið að þeir sem til álita kæmu yrðu beðnir um að þreyta hæfnispróf. Þetta er mikil framför og löngu tímabær, – – en æ, því miður, auglýsingin fjallaði aðeins um hæfni ritara og aðstoðarfólks!

Það er auðvitað ekki nýtt að alþingi og alþingismenn séu gagnrýnd. Undanfarin misseri hefur slík gagnrýni hins vegar verið mun háværari en áður. Nú er í skoðanakönnunum spurt hvort menn „treysti alþingi“, fjölmiðlamenn og álitsgjafar hlakka yfir niðurstöðunum og annar hver prófkjörsframbjóðandi kveðst ætla að vinna að auknu trausti á alþingi með „nýjum vinnubrögðum“.

Þó er það svo, að ekkert í vinnubrögðum á alþingi allra síðustu ár hefur dregið úr þeim árangri sem stjórnvöld hefðu ella getað náð. Stjórnarandstaðan á þingi hefur verið afar máttlaus og engu náð fram. Þá sjaldan hún efnir til átaka lyppast hún niður eftir fárra daga bardaga, og jafnan án þess að fá neitt í sinn hlut sem verulegu máli skiptir. Ríkisstjórnin hefur undanfarin fjögur ár getað náð öllu því fram sem hún hefur viljað. Auðvitað verður stundum karp á þingi, stjórnarandstaðan tefur einhver mál í fáa daga, en hún hefur engum árangri náð í neinu.

Telji menn þingið því ekki hafa skilað því sem þeir ætluðust til, þá er ekki við þingið sem slíkt að sakast, heldur stjórnarmeirihlutann. En fjölmiðlamenn virðast ekki vilja gagnrýna stjórnarmeirihlutann. Þess vegna er nú alltaf rætt um traust á „alþingi“. Þess vegna er nú í sífellu spurt um „traust á alþingi“. 

Þegar stjórnarandstaðan á þingi er jafn baráttulaus og hún hefur verið síðustu ár, þá er „alþingi“ í raun ekkert nema stjórnarmeirihlutinn. Traust „á alþingi“ er því í raun traust á stjórnarmeirihlutanum.

Til þess að „auka traust á alþingi“ þarf ekki þau „nýju vinnubrögð“ sem sumir tala fyrir. Það þarf hins vegar betri stjórnarmeirihluta sem kemur með betri mál. En þangað til betri stjórnarmeirihluti tekur við völdum, einhvern tíma, þarf mun betri stjórnarandstöðu. Stjórnarandstöðu sem þorir að berjast og ná raunverulegum árangri, ólíkt því sem raunin hefur verið undanfarin fjögur ár. Mikilvægt dæmi þar er atlaga ríkisstjórnarinnar að stjórnarskrá lýðveldisins. Þar verður stjórnarandstaðan að ná sínum fyrsta sigri á kjörtímabilinu.