Helgarsprokið 28. október 2012

Vefþjóðviljinn 302. tbl. 16. árg.

Frédéric Bastiat (1801-1850)
Frédéric Bastiat (1801-1850)

Hversu sennilegt þykir meginþorra lesenda Vefþjóðviljans að til sé hópur manna, sem lesi blaðið reglulega, en telji að það gagnrýni ekki opinber framlög til íþróttamála? Eða að til sé hópur manna, sem lesi Vefþjóðviljann reglulega, en telji hann ekki hafa beitt sér gegn opinberum fjáraustri til byggingar menningarhúsa?

Báðir þessir hópar eru til. En þeir skarast að vísu ekki.

Í hvert sinn sem Vefþjóðviljinn birtir pistil þar sem hann gagnrýnir undanlátssemi stjórnmálamanna við íþróttaforystuna, rándýru vellina sem reistir eru um allt land, stúkurnar og hlaupabrautirnar, fær hann bréf frá ósáttum lesendum. Bréfið er í stuttu máli á þá leið að bréfritari lesið blaðið reglulega og sé ánægður með margt en sumt geti hann þó ekki samþykkt. Þegar komi að íþróttamálunum sé Vefþjóðviljinn svo alveg úti að aka. Hvernig stendur á því, spyr dæmigerður slíkur bréfritari, að blaðið geti ekki unnt þeim opinbers stuðnings, sem sinna mikilvægu forvarnarstarfi með börnum og unglingum, en þegi svo jafnan um frekjuna í menningarmafíunni og bruðlið í tónleikasali hennar.

Þegar Vefþjóðviljinn birtir pistil um milljarðaframlög hins opinbera til menningarmanna, um Útrásarhöllina við höfnina, um sinfóníuna, um óperuna og menningarhúsin, fær hann bréf frá sárum lesendum. Bréfritrar, sem segjast lesa blaðið reglulega og vera ánægðir með ýmislegt þó annað megi betur fara, vilja bara vita hvers vegna blaðið sé svona fjandsamlegt menningunni. Hvers vegna er aldrei fjallað um íþróttaforkólfana með sama hætti? Af hverju er aldrei skrifað um hálftóma íþróttavelli með sama hætti og hina glæsilegu tónlistarhöll?

Nú hefur verið lagt til á alþingi að auknar verði niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar þeirra sem kynda hús sitt með rafhitun eða olíu. Um þetta mál hafa skapast talsverðar deilur í landinu með stórum orðum á báða bóga. Mörgum höfuðborgarbúanum þykir nóg um samfelldan stuðninginn við einhverja útkjálka. Landsbyggðarmönnum mislíkar hins vegar hversu hlaðið er undir höfuðborgarsvæðið aftur og aftur. Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifaði prýðilegan pistil um þetta mál í viðskiptablað Morgunblaðsins á fimmtudaginn. Vitnar hann þar meðal annars til franska stjórnspekingsins Frédéric Bastiat, sem ekki þarf að kynna fyrir lesendum Vefþjóðviljans, og orða hans um það sem hann nefndi „löglegan þjófnað“. Í riti sínu, Lögunum, sagði Bastiat:

En hvernig á að bera kennsl á slíka löggjöf? Það er nú lítið mál. Það þarf bara að skoða hvort tiltekin lög taki af fólki nokkuð sem tilheyrir því, til að afhenda öðrum sem eiga ekkert í því. Það þarf að athuga hvort lögin geri nokkuð það, einum til góðs en öðrum til ills, sem enginn einstaklingur gæti gert án þess að vera brotlegur. Það er eins gott að fella slík lög úr gildi við fyrsta tækifæri. Þau eru ekki aðeins ranglæti í sjálfu sér, heldur er eins víst að þau verði auðug uppspretta frekari ranginda. Ástæðan er sú að hnuplið kallar á hefndaraðgerðir – eyrir fyrir eyri, króna fyrir krónu – og fyrr en varir er undantekningin farin að vinda upp á sig og orðin að heilu kerfi.

Það er mikið til í þeim rúmlega hálfrar annarrar aldar gömlu orðum Bastiats að einn gallinn við lög sem færa peninga með valdi frá Pétri til Páls, er að þau verða oft „uppspretta frekari ranginda“. Menn horfa á sístækkandi hluta eigna og tekna sinna tekna af sér með valdi. Svo horfa menn á samfelldan austur úr „sameiginlegum sjóðum“. Auðvitað er mannlegt að hugsa með sér að það sé þá eins gott að reyna að fá eitthvað til sinna eigin hugðarefna. Það er einnig miklu auðveldara að krefjast opinberra styrkja, þegar aðrir hafa riðið á vaðið. Það er miklu erfiðara að andmæla styrk til annarra þegar menn hafa þegið þá sjálfir. Flestir styrkjasuðarar hafa fyrst og fremst áhuga á eigin styrk. Þeir óttast að ef þeir andmæla styrknum sem maðurinn við hliðina á þeim er að reyna að væla út, þá lokist einnig dyrnar á þá sjálfa.

 Sá sem eyðir öllum sínum frítíma og þriðjungnum af vinnutímanum líka í starf fyrir íþróttafélagið sitt, telur fjármál hreyfingarinnar vera mál málanna. Nýi völlurinn, sem byggður var í fyrra, var löngu tímabær, en hann nýtist auðvitað ekki að fullu fyrr en stúkan kemur. Ferðakostnaðurinn er að sliga unglingastarfið. Hvernig eigum við að standast samanburð við Svíana ef við fáum ekki fimmtíumetralaugina? Allir vita að íþróttir eru besta forvörnin og öll framlög til þeirra koma margföld til baka. Hvað kostar hver unglingur sem fer í fíkniefnin?

 Sá sem svona hugsar, og þeir eru ófáir, er ekki að fara að berjast gegn jarðgöngum, listamannalaunum og tónlistarhúsi. Hann veit tvennt. Í fyrsta lagi gætu öll rök um að stjórnmálamenn eigi ekki að taka fé af fólki til að útdeila til hagsmunahópa, hitt hann sjálfan fyrir með nákvæmlega sama hætti. Og í öðru lagi veit hann að milli hagsmunahópanna er þegjandi samkomulag um að allir leggist á ríkissjóð en enginn gagnrýni annars frekju opinberlega. Hver og einn hagsmunahópur er í einkastríði við skattgreiðendur og þeir gæta þess allir að gera ekkert sem gæti orðið til þess að styrkja vígstöðu skattgreiðenda almennt. Þannig að þó flestir hagsmunahóparnir sjái í raun ofsjónum yfir ágengni allra hinna, þá vita þeir að þeim er hollast að segja sem fæst opinberlega, en leggjast bara af meiri þunga sjálfir á ríki og sveitarfélög.

Meðal annars vegna þessa, er ákaflega mikilvægt að skattgreiðendur velji sér fulltrúa sem fastir eru fyrir. Í flestum kjördæmum standa prófkjör fyrir dyrum. Það er mikilvægt að þar fái þeir frambjóðendur brautargengi sem hafa raunverulegan skilning á því vandamáli sem felst í samfelldum fjáraustri til þrýstihópanna, frambjóðendur sem vilja breyta í grundvallaratriðum hlutverki hins opinbera í daglegu lífi borgaranna, en ætla ekki að halda áfram á sömu braut með einhverjum öðrum „vinnubrögðum“.