Vefþjóðviljinn 296. tbl. 16. árg.
Kannski er ekki rétt að segja þetta svona hreint út. Það er ekki víst að það sé hollt þegar haft er í huga hve fast sumir hafa bitið í sig að varpa verði stjórnarskrá farsæls lýðræðisríkis í Norður-Atlantshafi fyrir róða.
En hér kemur það nú samt: Skoðanakönnunin á laugardaginn um tillögu stjórnlagaráðs hefur engar óhjákvæmilegar afleiðingar í för með sér. Nákvæmlega engar.
Eftir sem áður er lýðveldisstjórnarskráin í fullu gildi. Henni verður sem fyrr ekki breytt nema með samþykkt alþingis, þingrofi og almennum kosningum, samþykkt að nýju á nýkjörnu þingi og staðfestingu forseta Íslands.
Og við mögulegar breytingar á stjórnarskránni, eins og önnur löggjafarstörf, gildir hin ágætasta 48. grein hennar:
Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.