Þriðjudagur 23. október 2012

Vefþjóðviljinn 297. tbl. 16. árg.

Eiga skattgreiðendur að bæta íbúðarkaupendum fé sem tapast er verðbólur springa? Hvað ef verð hækkar á nýjan leik?
Eiga skattgreiðendur að bæta íbúðarkaupendum fé sem tapast er verðbólur springa? Hvað ef verð hækkar á nýjan leik?

Nú fer bæði framboðum og yfirboðum fjölgandi. 

Sér í lagi munu menn láta í það skína að þeir hafi töfralausn á skuldavanda heimilanna. „Taka þarf á skuldavanda heimilanna af festu.“ „Grípa þarf til aðgerða til að leiðrétta verðtryggð lán.“

Sjaldan mun fylgja boðinu hver eigi að greiða. Og ástæðan fyrir því er einföld. Það er enginn tilbúinn til að greiða þennan reikning. Hvorki skattgreiðendur né eigendur lífeyrisréttinda, svo helstu lánveitendur til húsnæðiskaupa séu nefndir.

Á árunum 2003 til 2008 hækkaði fasteignaverð langt umfram verðlag almennt. Þá var aldrei rætt um að „leiðrétta“ þyrfti húsnæðislán til samræmis við það. En þegar verðlag almennt fer fram úr húsnæðisverði og veðlán sem áður var 60% er orðið 90% af verðmæti íbúðar er heimtað að mönnum sé bætt tap á eigin fé. 

Að menn njóti hækkunar á eignum sínum en fái lækkun bætta með fjármunum skattgreiðenda er ekkert annað en það sem kallað hefur verið einkavæðing á hagnaði og þjóðnýting á tapi.

Það sem þarf að gera hérna er að lækka skatta og aðrar álögur á almenning og fyrirtæki svo menn geti sjálfir aflað tekna til að greiða skuldir sínar. Rétt eins og til stóð.