Helgarsprokið 21. október 2012

Vefþjóðviljinn 295. tbl. 16. árg.

Þriðjungur landsmanna tók þátt í hinni ógildu kosningu til stjórnlagaþings og þriðjungur sagði já við tillögum stjórnlagaráðs. Það er nú allur áhuginn á því að skipta um stjórnarskrá. Mynd: stjornlagarad.is.
Þriðjungur landsmanna tók þátt í hinni ógildu kosningu til stjórnlagaþings og þriðjungur sagði já við tillögum stjórnlagaráðs. Það er nú allur áhuginn á því að skipta um stjórnarskrá. Mynd: stjornlagarad.is.

Meginniðurstaða könnunarkosningarinnar um helgina, þar sem landsmenn fengu færi á að tjá sig um tillögur „stjórnlagaráðs“ að nýrri kosningu er ánægjuleg. 

Árum saman hefur hópur manna talað um að þjóðin krefðist nýrrar stjórnarskrár. Og að sérstaklega væru nokkur atriði svo mikilvæg þangað inn, að þau vildu allir nema örfáir varðmenn sérhagsmuna.

Um helgina fór fram „ráðgefandi kosning“ um þessi atriði. Eðli hennar er allt annað en venjulegra kosninga. Í raun snerist „kosningin“ um helgina um það að kanna hversu já-in yrðu mörg. Í gildi er stjórnarskrá, samþykkt á sínum tíma af nær öllum atkvæðisbærum mönnum og síðan endurskoðuð nokkrum sinnum, en undantekningarlítið í almennri sátt. Ákveðin þjóðfélagsöfl hafa haldið því ákaft fram á síðustu árum að þjóðin vildi nú skipta um stjórnarskrá, og um helgina gafst þeim færi á að sýna fram á að það væri rétt.

Niðurstaðan er afgerandi. Aðeins um þriðjungur manna lýsir vilja til að slík breyting verði gerð. Og heitustu atriðin, sem fengu sérstaka spurningu hvert, fengu litlu meiri stuðning. Ákall almennings er ekki meira en þetta.

En er það ekki þannig í kosningum að þeir sem mæta ráða úrslitum en hinir hafa sagt sig frá málinu? Jújú, í hefðbundnum kosningum er það þannig. En hér var engin hefðbundin kosning á ferð. Þetta var „ráðgefandi kosning“ um mál sem ber að ákveða á þingi en ekki annars staðar, og snerist um breytingu á grundvallarreglum sem áratugum saman hefur ekki verið breytt nema með almennri sátt.

Og nú liggur fyrir að einungis þriðjungur landsmanna tekur undir með þeim sem vilja skipta um stjórnarskrá.

Það er einnig sérstaklega athyglisvert að fylgið nú við tillögu „stjórnlagaráðs“ er sambærilegt við þann fjölda sem kaus til stjórnlagaþings. Það er þriðjungur landsmanna sem hefur áhuga á þessu máli. Tillaga ráðsmanna varð ekki til þess að fjölga þeim.

En hvers vegna beittu þá ýmsir sér fyrir því að menn kysu gegn tillögunni? Ætli það sé ekki vegna þess að menn þekkja núverandi stjórnvöld,fjölmiðla og álitsgjafa. Þeir munu auðvitað engar ályktanir draga af þeirri staðreynd að einungis þriðjungur landsmanna lýsir stuðningi við tillöguna. Þess vegna töldu margir að rétt væri að láta sig hafa það að fara og kjósa gegn þessu, þrátt fyrir alla forsöguna, ógildu kosninguna og hunsun úrskurðar hæstaréttar. En meirihluti landsmanna ákvað þess í stað að sitja heima. Það breytir þó ekki því, að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna hefur ekki tekið undir þann málflutning að þjóðin krefjist stjórnlagaþings, stjórnlagaráðs og nýrrar stjórnarskrár. Eftir „ráðgefandi kosningu“ helgarinnar er ljóst, að ekkert var til í því að þjóðin krefðist nýrrar stjórnarskrár.