Mánudagur 15. október 2012

Vefþjóðviljinn 289. tbl. 16. árg.

Hvenær hafa fjölmiðlar sýnt minnihlutahópnum Evrópusambandsandstæðingum í Samfylkingunni áhuga? Sá hópur er jafn lítill og ESB sinnar í Sjálfstæðisflokknum.
Hvenær hafa fjölmiðlar sýnt minnihlutahópnum Evrópusambandsandstæðingum í Samfylkingunni áhuga? Sá hópur er jafn lítill og ESB sinnar í Sjálfstæðisflokknum.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun er yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það þarf auðvitað ekki að koma á óvart, en ekkert haggar auðvitað ríkisstjórninni sem ætlar að halda áfram að sækja um og sækja um, í þeirri von að einhvern tíma gerist eitthvað sem um stund breyti afstöðu nægilegra margra til þess að hægt verði að stökkva til í skyndi, „nýta gluggann“, og koma Íslandi um aldur og ævi inn í stórríkið á  meginlandinu.

Í þessu er ekkert nýtt. Eitt er hins vegar skemmtilegt við niðurstöður könnunarinnar. Samkvæmt þeim er eindregin andstaða við inngönguna á meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, en eindreginn stuðningur við inngönguna á meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar. Hvorugt kemur auðvitað á óvart. En svo skemmtilega vill til að sama hlutfall stuðningsmanna er í þessu máli á öndverðu máli við félaga sína. Samkvæmt könnuninni eru 12% sjálfstæðismanna og 12% framsóknarmanna hlynnt inngöngu, en 12% Samfylkingarmanna andvíg henni.

Og hvað er skemmtilegt við þetta? Jú, þetta er skemmtilegt þegar hugsað er til hinnar ólíku fjölmiðlaumfjöllunar um minnihlutamenn þessara flokka. Fjölmiðlar og álitsgjafar hafa geysilegan áhuga á og áhyggjur af minnihlutanum í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Á virkilega að troða hann undir? Leyfist bara ein skoðun í þessum flokkum, ha? Er hætt við klofningi? Á landsfundum þessara flokka þora margir varla lengur að álykta, af ótta við að móðga örminnihlutann. Sjálfstæðismenn í Kraganum kjósa Ragnheiði Ríkharðsdóttur á þing, af ótta við að styggja krata. 

En hvernig er þetta í Samfylkingunni? Hefur einhver fjölmiðill eða álitsgjafi einhvern tíma haft einhverjar áhyggjur af minnihlutanum þar? Hefur einhver velt því fyrir sér hvort í Samfylkingunni leyfist „aðeins ein skoðun“? Nei, enginn hefur áhyggjur af þessum minnihluta. Enginn ætlast til þess að þessi minnihluti ráði stefnu flokksins. Það er bara í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum sem slíkar kröfur heyrast reglulega og er fylgt eftir með hótunum um klofning og Fréttablaðsviðtölum um það hvað hinir séu miklir einstrengingsmenn að leyfa ekki örminnihlutanum að ráða þessu.