Vefþjóðviljinn 288. tbl. 16. árg.
Óvíða í Reykjavík lenda menn í meiri mengun á almannafæri en ef menn eru staddir fyrir aftan elstu strætisvagnana í flotanum og fá útblásturinn úr útjöskuðu Dieselvélunum yfir sig. Þetta á sérstaklega við þegar níðþungir vagnarnir fara af stað í brekkku og bókstaflega gera í brækurnar, sem því miður vill svo til að eru loftið sem gangandi og akandi vegfarendur þurfa að draga andann úr.
Vaskur lesandi fékk sér rykgrímu í lok ágúst og náði meðfylgjandi mynd af afturenda strætisvagns. Þar má lesa þessa fullyrðingu:
Útblástur frá strætisvögnum er mun minni á hvern farþega en þegar ferðast er með einkabíl.
Vefþjóðviljinn leitaði til Strætó bs. eftir rökstuðningi við þessa fullyrðingu og var vísað milli manna þar á bæ uns talsmaður félagsins viðurkenndi að það væri „ekki einfalt mál fyrir okkur að finna út þær tölur.“ Þær lágu því ekki fyrir þegar auglýsingin var birt.
En þetta hefur þó verið skoðað því að um síðustu aldamót reiknaðist Vefþjóðviljanum til að nýtingin á strætisvögnunum væri svo slök að það væri nær alltaf minni útblástur (koltvísýrings) á farþega frá einkabíl en strætó ef tveir væru í einkabílnum. Og jafnvel þótt væri aðeins einn farþegi í einkabíl væri útblástur frá honum í mörgum tilfellum minni en frá strætisvagnafarþega. Sagt var frá þessum niðurstöðum í fréttum og ekki gerðar athugasemdir við þær af forsvarsmönnum strætisvagnanna.
Um aldamótin var meðaleyðsla vagnanna um 51 lítrar á hundrað kílómetra. Hún hefur lækkað í 46 samkvæmt Ársskýrslu umhverfis- og öryggismála Strætós bs. Ekki er skýrt í þessari skýrslu hvort þessi lækkun stafar af nýjum og sparneytnari vögnum eða breytingum á leiðakerfi eins og auknum akstri á lengri leiðum en nýlega hóf strætó til dæmis að skutla mönnum í humar á Hornafirði.
Þessi mikla olíueyðsla vagnanna þýðir einfaldlega að til að minni útblástur sé frá strætisvagnafarþega en til dæmis einum manni á Toyota Yaris (1.4Diesel sem eyðir 4,8L/100km innanbæjar) þurfa alltaf að vera 10 farþegar í strætisvagninum. Ef strætófarþeginn á að gefa minna frá sér en annar farþegi af tveimur í þessum Yaris þurfa alltaf að vera 20 farþegar í strætisvagninum.
Í fyrrnefndri skýrslu Strætó bs. um umhverfismál er ekki vikið einu orði að nýtingu strætisvagnanna. Það er undarlegt að fyrirtækið gefi út skýrslu um frammistöðu sína í umhverfismálum án þess að upplýsa um meðalfarþegafjölda. Síðast þegar Vefþjóðviljinn sá einhverjar tölur um nýtinguna var áætlað að meðaltali væru 9 farþegar í vögnunum.
Síðan sú áætlun var gerð náðu Íslendingar þeim áfanga að bílar urðu fleiri en bílprófsskírteini og nýting strætisvagnanna hélt áfram að versna þótt hún kunni að hafa batnað að einhverju leyti á nýjan leik allra síðustu ár.
En líkt og vikið var að hér í upphafi gefa strætisvagnarnir ekki aðeins frá sér mikið af gróðurhúsalofttegundinni heldur er sótmengun frá mörgum þeirra alveg ferleg. Gamlar, slitnar Dieselvélar eins og eru í flestum vagnanna sóta margfalt á við nýjar bílvélar. Um þessa sótmengun eru hins vegar engin bein gögn til að styðjast við – en það eitt ætti að vera næg ástæða fyrir Strætó bs. til að fullyrða ekki svo glatt að „útblástur frá strætisvögnum [sé] mun minni á hvern farþega en þegar ferðast er með einkabíl.“