Laugardagur 13. október 2012

Vefþjóðviljinn 287. tbl. 16. árg.

Helmingur mannkyns ræður ekki við sig í skóbúðum og það hafa ákveðnir menn hagnýtt sér blygðunarlaust. Banna?
Helmingur mannkyns ræður ekki við sig í skóbúðum og það hafa ákveðnir menn hagnýtt sér blygðunarlaust. Banna?

Eins og menn vita þá vilja stjórnlyndir menn banna öðru fólki að taka svokölluð smálán. Þeim stjórnlyndu þykja vextirnir sem fólk semur um, vera allt of háir.

Vandamálafjölmiðlarnir, ekki síst Ríkisútvarpið og Fréttablaðið, flytja öðru hverju fréttir af fólki sem hefur komist í vandræði vegna „smálána“ sem það getur ekki borgað til baka. Slíkar fréttir verða mörgu góðgjörnu fólki tilefni til að vilja að þessi „ósanngjörnu lán“ verði bönnuð. 

Þetta er auðvitað rétt. Sumir hafa vissulega komið sér í vandræði með því að taka smálán sem þeir gátu ekki borgað. Þess vegna er rétt að banna öllum að taka slík lán, að minnsta kosti á svona vondum kjörum.

Og raunar á þessi röksemd ekki aðeins við um „smálán“. Menn hafa komið sér í tóm vandræði með allskyns bankalánum. Það er rétt að banna þau líka. Enn ein vandræðasúpan er svo fólgin í lánum Íbúðarlánasjóðs. Sumir hafa tekið allt of há lán þar og eru í skuldafjötrum árum og áratugum saman.

Það verður að banna þessi lán frá Íbúðarlánasjóði.

Og þessir fantar hjá smálánafyrirtækjunum, þeir eru nú ekki að reka nein góðgerðafyrirtæki. Þetta snýst allt um gróða og að nýta sér þörf annarra fyrir peninga, til þess að græða sjálfir. Svoleiðis menn hafa ekkert hlutverk á nýja Íslandi þegar Þorvaldur verður búinn að setja landinu nýja stjórnarskrá.

Ekki frekar en aðrir sem reyna að græða á einhverjum skorti annarra. Til dæmis skókaupmenn. Þar er nú engin góðgerðastarfsemi á ferðinni, öðru nær. Þetta eru gráðugir menn sem hafa áttað sig á því að aðrir eru í vandæðum, kannski búnir að slíta einu skónum sínum. Og hvað gera þeir? Jú, reyna að nýta sér skóskort náungans til að selja honum eitt af sínum pörum, á verði sem þeir ákveða einir. Svona kallar.

Verstir eru samt líkkistusmiðir og útfararstjórar. Þeir reyna hreinlega að auðgast á andláti fólks. Líklega best að byrja á því að banna þá. Næst má taka þá sem reyna að auðgast á sjúkdómum fólks, þetta lið sem situr um peninga veiks fólks með því að reka læknastofur og apótek. Þegar búið að loka þeim sem reyna að græða á veikindum annarra, má taka þá sem reyna að hagnast á bæklun og fötlun annarra. Halda menn að þessir hækjuframleiðendur séu einhverjir mannvinir?

Nei öðru nær. Og þegar búið að stöðva þá, þá er röðin komin að þessum smálána-mönnum. Vextirnir þeirra eru svívirðilegir.