Þriðjudagur 16. október 2012

Vefþjóðviljinn 290. tbl. 16. árg.

Í Kastljósi í gærkvöldi var rætt við bandaríska prófessorinn Gail Dines sem þrjú ráðuneyti hafa flutt til landsins til að segja frá grófu klámefni sem vissulega flæðir um netið. Dines margendurtók að þetta svæsna klámefni væri helsta fræðslan um kynlíf sem 12 ára drengir á Vesturlöndum fengju. Og já það þarf vart að taka það fram að blessaðir drengirnir myndu apa allt það eftir sem fyrir þeim væri haft við fyrsta tækifæri.

Menn hafa áður reynt að telja fólki trú um að allt sem kæmi fram í stríðs- og ofbeldismyndum myndu menn hagnýta sér heima í stofu og á næsta bar. 

En þannig er það ekki. 

Jafnvel 12 ára drengir gera almennt greinarmun á því sem fer fram á skjá og í eigin lífi. 

Eftir að Al Gore var svo vinsamlegur að hanna internetið fyrir hinn almenna mann opnuðust flóðgáttir fyrir dreifingu ofbeldisefnis. En ofbeldisglæpum í Bandaríkjunum hefur fækkað í takt við aukna útbreiðslu netsins. Allir virðast límdir við skjáinn og enginn nennir lengur út að leika eða slást. En það hreyfingarleysi er vafalaust sérstakt tilefni til að flytja inn annan vandráð til að ræða málið á kostnað skattgreiðenda.