Vefþjóðviljinn 257. tbl. 16. árg.
Það er eins og sumir haldi að mannkynið skiptist ekki í milljarða einstaklinga, heldur tvo hópa. Alla karla allra tíma og Allar konur allra tíma. Og á milli þessara hópa sé samfellt reikningsdæmi í gangi. Það sem einhverjum í öðrum hópnum falli í skaut, teljist þá teknamegin hjá öllum í þeim hópi. Það sem gert sé á hlut einhvers í hinum hópnum, komi með sama hætti þar fram í samanlögðu. Réttlæti snúist svo um að ná jafnvægi milli hópanna.
Þeir sem trúa á hópana tvo, þeir hafa mikinn áhuga á kynjahlutföllum. Þau eru nefnilega hugsuð til að sýna hvor hópurinn er „yfir“ og hvor „undir“. Þegar menn vita það, þá geta þeir snúið sér að því að jafna metin.
Þeir sem trúa á hópana tvo, þeir geta jafnframt stutt svokölluð jafnréttislög. Þau snúast einmitt um að jafna mun á milli slíkra tveggja hópa. Í huga þeirra sem styðja lögin eru nefnilega engir einstaklingar. Þeir sem sækja um starf eru ekki Jón og Gunna heldur eru umsækjendurnir Allir Jónar Heimsins og Allar Gunnur Heimsins. Þess vegna má umsækjandi alveg gjalda fyrir að vera í röngum hópi. Hann er ekki einstaklingur heldur einungis agnarsmár hluti hóps.
Ef nú losnar starf hjúkrunarfræðings einhvers staðar og tveir sambærilegir nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar sækja um, Gunna hjúkka og Jón hjúkki, þá blasir við hvernig jafnréttislaga-sinnar vilja taka á málinu. Það er aðeins nýlega sem karlmenn fóru að sækja í hjúkrunarfræðinám og hafa aðeins örfáir lokið því. Kynjatalning í stéttinni sýnir því „yfirburðastöðu kvenna“. Og af því að í huga jafnréttislaga-sinnanna eru ekki til neinir einstaklingar heldur bara hóparnir tveir, þá situr Gunna hjúkka uppi með það að vera ekki metin sem einstaklingur, heldur þarf hún að bera allar stallsystur sínar á bakinu, allt frá Florence Nightingale. Jón hjúkki hefur engar slíkar syndir. Þarna „hallar á“ karlmenn, og slíkan „halla“ ber að jafna.
Gunna hjúkka hefur ekkert gert af sér. Sá sem ræður í starfið veit hins vegar að ef hann ræður Gunnu, þá verða tóm leiðindi. Hann verður kærður. Það verður krafist bóta. Ef hann var á móti Icesave mun fréttastofa Ríkisútvarpsins fá málið á heilann. Björn Valur heimtar afsögn ef þeir eru flokksfélagar. Fréttablaðið mun tapa sér og Karlréttindafélagið mun álykta.
Þetta er allt af því að þeir sem trúa á hópana tvo ráða allt of miklu. Þeir sem eru í kynjatalningunni. Þeir sem halda að á jörðinni séu tveir hópar en ekki milljarðar einstaklinga.