Vefþjóðviljinn 256. tbl. 16. árg.
Félagsskapurinn „Hægri grænir, flokkur fólksins“ er um margt merkilegur. Af öllum þeim örflokkum og flokksbrotum sem hamast gegn „gamla fjórflokks- og embættismannakerfinu“ og buna innihaldslausum frösum yfir landslýð ár og síð þá eru Hægri grænir einir um að skilgreina sig til hægri í stjórnmálum. Á heimasíðu flokksins segir að helstu gildi hans séu m.a. þessi: „Einstaklingsfrelsi er lykillinn að gæfu þjóðarinnar ásamt lágum sköttum, friðsömum og haftalausum milliríkjaviðskiptum, traustum gjalmiðli, frjálsri samkeppni og sem minnstum ríkisafskiptum.“ Þá er víða á heimasíðunni vísað til borgaralegra gilda, frelsis fólks til orðs og æðis og mikilvægi þess að koma böndum á útgjöld ríkisins.
Ekki síður merkilegt er þó að meðal verkfæra sem þessi yfirlýsti borgaraflokkur vill grípa til eru gamalkunn tól vinstri manna. Má þar nefna hverju þeir vilja beita á hinn sívinsæla „skuldavanda heimilanna“, en þar vilja þeir „færa öll vertryggð húsnæðislán heimilanna til baka í 278,1 stig sem var vísitala neysluverðs til verðtryggingar þann 1. nóv 2007“ og „stofna magnbundinn íhlutunarsjóð innan Seðlabankans með neyðarlögum“. Meðal stikkorða úr „hugmyndasarpi“ flokksins eru gullmolar á borð við „afnám bankaleyndar“, „bæta rekstrarskilyrði bænda“, „opinbera rannsókn á sparisjóðum, tryggingarfélögum, fjármögnunarfyrirtækjum, lífeyrissjóðum og stórum endurskoðendum“ (litlir endurskoðendur varpa öndinni léttar), „efla og styrkja allt sem viðkemur hótel og ferðamannaiðnaðinum“, „efla og endurvekja sígildar framleiðslugreinar í iðnaði“, „ný lög um gegnsæi“, „endurhugsa félagslega kerfið á íbúðamarkaði“ og „endurhugsa og bæta uppbyggingu samvinnufélaga“. Meðal gilda flokksins má nefna að „á Íslandi skal byggja upp náttúruvænt þekkingarþjóðfélag“, „flytja lýðræðisþáttökuna nær fólkinu með rafrænum atkvæðagreiðslum“, „rafrænar kosningar t.d. í félög, sveitarfélög, stjórnir lífeyrissjóða og verkalýðsfélög og síðast en ekki síst þjóðaratkvæðagreiðslur“ og loks: „Frí þráðlaus nettenging og háhraðanet verður að vera í þéttbýliskjörnum og á höfuðborgarsvæðinu.“
Á mánudaginn var haldinn flokksfundur „Hægri grænna, flokks fólksins“. Daginn eftir barst fréttatilkynning um það sem þessi stjórnmálaflokkur taldi brýnast að álykta um: „Ótrúleg ófyrirleitni og lágkúruleg framkoma borgaryfirvalda er að börnum sé meinuð þátttaka í frístundastarfi vegna vangoldinna reikninga hjá Reykjavíkurborg.“
Þær eru greinilega ýmsar, hægri stefnurnar. Og kannski ágætt að merkja þær með litum til aðgreiningar fyrir skemmra komna.