Þriðjudagur 11. september 2012

Vefþjóðviljinn 255. tbl. 16. árg.

Þetta er nú meira liðið.

Julian Assange, sem sumir álitsgjafar á Íslandi, telja hinn merkilegasta mann, kærði  nýlega breska sjónvarpsstöð fyrir að brjóta gegn einkalífi sínu. Sjónvarpsstöðin hafði sýnt myndskeið af Assange dansa á skemmtistað.

Nú hefur Vefþjóðviljinn ekki séð dansinn og veit ekki hversu merkileg sjónvarpsmynd þetta getur verið. En það er bara ekki hægt að vera stofnandi Wikileaks, berjast fyrir því að Ísland verði fríríki allra þeirra sem vilja birta stolin gögn og hvað eina annað opinberlega – og kæra aðra menn svo fyrir að sýna mynd af sér dansa á opinberum skemmtistað. Það er bara ekki hægt að bjóða upp á það.  

Tíst og stöður Birgittu Jónsdóttur og myndir af dansiballi með Julian Assange munu einu upplýsingarnar í veröldinni sem undanþegnar eru &#8222upplýsingafrelsi&#8220.
Tíst og stöður Birgittu Jónsdóttur og myndir af dansiballi með Julian Assange munu einu upplýsingarnar í veröldinni sem undanþegnar eru &#8222upplýsingafrelsi&#8220.

En þetta minnir á annað dæmi. Fyrir nokkru hóf Birgitta Jónsdóttir mikla baráttu gegn því að yfirvöld í erlendu ríki fengju einhver tölvugögn hennar afhent. Beitti hún þeim rökum að hún væri sko alþingismaður og fékk íslensku stjórnsýsluna með sér í baráttuna, því það væri mjög alvarlegt að friðhelgi alþingismanns væri ekki virt.

Já, leiðin frá alþýðumanni til yfirstéttar getur oft verið styttri en menn héldu. Birgitta, sem sjálf hefur hamast innan Wikileaks og berst einmitt fyrir því að Ísland verði fríríki „upplýsinga“, gat ekki hugsað sér að hennar eigin gögn kæmust í óviðkomandi hendur. Og virtist telja að alþingismenn ættu þar meiri rétt en ómerkilegir almennir borgarar. 

Og þriðja fréttin úr sömu átt barst í gær. Þór Saari lýsti því yfir að Sjálfstæðisflokkurinn væri „hægriöfgaflokkur“, hvorki meira né minna. Hann bætti því við að hér á landi vantaði „almennilegan og heiðarlegan flokk sem aðhyllist borgaraleg gildi“.

 Já já, Sjálfstæðisflokkurinn er hægriöfgaflokkur, en Þór Saari, sem hefur stært sig af því að hafa lamið sig inn í þinghúsið með óeirðum og vill stjórnarskrána feiga, hann telur mikla þörf á almennilegum flokki sem aðhyllist borgaraleg gildi.

Þetta er nú meira liðið.