Vefþjóðviljinn 254. tbl. 16. árg.
Það má segja ýmislegt um frjálsan markað. Líkt og Vefþjóðviljinn hefur stundum nefnt þá eru nær engar líkur á því að öllum líki allt sem þar fer fram. Enda hefur fólk misjafnan smekk. En helsti kosturinn við markaðinn, umfram til að mynda ríkisforsjá, er að menn geta almennt vikið sér undan því sem þeim mislíkar. Menn geta hætt að styrkja útgáfu Vefþjóðviljans þegar þeir vilja en það er öllu snúnara að losa sig undan útvarpsgjaldinu sem fjármagnar Spegilinn.
Egill Helgason ræddi við kóreska hagfræðinginn Ha-Joon Chang í Ríkissjónvarpinu í gær en hann hefur skrifað bókina 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá og er nú komin út á íslensku undir lófataki Stefáns Ólafssonar prófessors.
Egill: Eins og þú bendir á að þegar þrælahald var afnumið var verið að afnema ákveðna gerð frjáls markaðar.
Ha-Joon Chang: Svo sannarlega.
Egill: Og barnaþrælkun einnig.
Ha-Joon Chang: Já. Á sínum tíma voru margir andvígir því að afnema barnaþrælkun og þrælahald af einmitt þessum sökum, að það væri inngrip í frjálsan markað.
Vefþjóðviljinn hlýddi á þessi ósköp og náði sér að því búnu í eintak af bók Ha-Joon Chang til að sannreyna að orð af þessu tagi hlytu að vera óráðstal eftir langt flug til landsins.
Á blaðsíðu 169 – 170 segir Ha-Joon Chang frá því hvernig Stalín, að forskrift hagfræðingsins Preobrazhenskís, þjóðnýtti landbúnað og tók eigur af stórbændum eftir að hann náði öllum völdum árið 1928. Þjóðnýtingin hafði þær afleiðingar að milljónir manna sultu í hel og milljónir manna sem mölduðu í móinn voru sendar í þrælkunarbúðir, líkt og Ha-Joon Chang segir frá í bók sinni. Og hvaða ályktun dregur hann helst af þessum hörmungum Rússa?
Það er sláandi samsvörun milli aðferða Stalíns (eða Preobrazhenskís) og stefnunnar sem hagfræðingar frjálsa markaðarins eru talsmenn fyrir nútildags og hyglar þeim ríku.