Helgarsprokið 9. september 2012

Vefþjóðviljinn 253. tbl. 16. árg.

Íslendingar eru á kafi í skuldum en Össur ólmaðist eins og kviðsítt naut í mýri þar til þeir styrktu mig.
Íslendingar eru á kafi í skuldum en Össur ólmaðist eins og kviðsítt naut í mýri þar til þeir styrktu mig.

Á undanförnum árum hefur venjulegur atvinnurekstur mátt þola gríðarlegar skattahækkanir auk gjaldskrárhækkana einokunarfyrirtækja hins opinbera á borð við Orkuveitu Reykjavíkur.

Í Fréttablaðinu í gær gumaði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hins vegar af því að ríkið hafi eftir fjármálahrunið hækkað styrki til einnar tegundar atvinnustarfsemi úr 14 í 20% af útlögðum kostnaði. 

Hér er um að ræða starfsemi erlendra kvikmyndagerðarmanna hér á landi. 

Um forsögu málsins hafði Össur þetta að segja:

Þessi merku lög voru upphaflega barin í gegn af Finni Ingólfssyni, iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, við töluverða erfiðleika gagnvart Sjálfstæðisflokknum, sem Þórey [Vilhjálmsdóttir] vinnur fyrir. Finnur lagði til, og fékk samþykkta, 14% endurgreiðslu.

Þessi frásögn kemur nokkuð á óvart því Finnur Ingólfsson var ráðherra á frjálshyggjuárunum svonefndu þegar Sjálfstæðisflokkurinn réð öllu og allt var skorið niður. Í þessu máli var Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar barinn til hlýðni og niðurgreiðslur og ríkisstyrkir til erlendra kvikmyndagerðarmanna tekin upp.

Þegar ég varð iðnaðarráðherra 2007 átti ég fundi með kvikmyndagerðarfólki sem færði afar sterk rök fyrir nauðsyn þess að hækka endurgreiðsluna upp í 20%. Ég fór með málið af stað en þótt ég ólmaðist eins og kviðsítt naut í mýri mætti ég hörðum vegg hjá Sjálfstæðisflokknum sem var líka í þáverandi ríkisstjórn. Flokkurinn, sem Þórey [Vilhjálmsdóttir] vinnur fyrir, var einfaldlega á móti því að hækka endurgreiðsluna upp í 20%.

Það kvað við annan tón þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð tók sæti í ríkisstjórn. Á öðrum fundi þeirrar ríkisstjórnar tók ég upp úr skúffu frumvarpið sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi aldrei sjá í ríkisstjórn – og það rann í gegn. Alþingi samþykkti 20% endurgreiðsluna í kjölfarið. Síðan rann upp það blómaskeið í kvikmyndagerð á Íslandi sem framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna lýsti svo fallega í grein sinni hér í Fbl. á dögunum.

Auðvitað er þessi endurgreiðsla ekkert annað en ríkisstyrkur eða niðurgreiðsla. Þykir ráðherra sem hækkar allar álögur á landa sína það ekki undarlegt að taka hluta þess skattfjár og styrkja Ben Stiller og Tom Cruise til kvikmyndagerðar? Ætlaði norræna velferðarstjórnin ekki að færa skattbyrði af láglaunafólki yfir á hálaunamenn? Teljast Curise og Stiller fátæklingar í samanburði við íslenska skattgreiðendur?

Í fjárlögum fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar nemi alls 153,5 milljónum króna. Komma fimm, ef Cruise skyldi fara aukaferð eftir sviðasultu á þyrlunni. Framleiðslukostnaður Oblivion myndar Cruise er áætlaður 100 milljónir Bandaríkjadala eða um 12 milljarðar króna. Ætli það vegi í raun þungt þegar einn af mörgum tökustöðum kvikmyndar með slíka kostnaðaráætlun er valinn hvort myndin fær 20% endurgreiðslu á því broti kostnaðarins sem fellur til í tökulandinu? Sjálfshól ráðherrans minnir á fullyrðingar  landkynningariðnaðarins um að auglýsingar á kostnað skattgreiðenda hefðu haft meira að segja um fjölgun ferðamanna undanfarin ár en 50% fall krónunnar og tvö eldgos.

En ef það er raunin, hvers vegna er þessi leið ekki farin með fleiri atvinnugreinar? Mætti ekki auka líkurnar á því að fá nánast hvaða starfsemi sem er til landsins með því að heita 20% endurgreiðslu á kostnaði?