Laugardagur 8. september 2012

Vefþjóðviljinn 252. tbl. 16. árg.

Vefþjóðviljinn vakti á því athygli á dögunum að norræna velferðarstjórnin hefur vikið til hliðar hugsjónum á borð við „jafnt aðgengi fyrir alla“, „burt með komugjöldin“, „aðgengi óháð efnahag“ og „gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta“. Nú þurfa sjúkir og særðir að greiða fyrir aðgang að stærsta sjúkrahúsi landsins óháð efnahag, jafnt ríkir sem fátækir. 

Og hvað var það sem yfirskyggði helstu hugsjónir jafnaðarmanna? Jú gamla góða hatrið á einkabílnum. Bílastæðin við Landsspítalann standa svo langt frá öðrum fyrirtækjum og stofnunum að það hvarflar ekki að nokkrum manni að leggja þar nema eiga erindi á spítalann. Engu að síður þurfa gestir nú að greiða fyrir afnot af stæðunum ef þeir vilja fylgja frúnni á fæðingardeildina. Nálægar íbúagötur eru þar af leiðandi fullar af bílum spítalagesta.

Samkvæmt fréttum í vikunni ætla menntamálayfirvöld nú einnig að fara þessa nýju leið framhjá jafnaðarstefnunni. Framvegis munu námsmenn og aðrir sem erindi eiga í Háskóla Íslands greiða fyrir bílastæði þar. Fer vel á því að Katrín Jakobsdóttir heimsmethafi í byggingu bílastæðahúsa hrindi þessari stefnu í framkvæmd.

Einhver telur vafalaust að þarna hafi vinstrimenn náð að glefsa í einkabílismann. Það kann að vera, en um leið eru jafnaðarmenn boðnir velkomnir í hóp þeirra sem telja eðlilegt að menn greiði að einhverju leyti fyrir aðgang að þeirri þjónustu sem ríkið veitir.