Vefþjóðviljinn 244. tbl. 16. árg.
Ef marka má fréttir ætlar Samfylkingin að halda prófkjör nú á haustmánuðum vegna alþingiskosninga sem verða í apríl á næsta ári.
Það er nær sjálfsagt að prófkjör verði í flokkunum við þær aðstæður sem nú eru. Kosning, þar sem allir flokksmenn hafa atkvæðisrétt, er eina leiðin til að ná sæmilegri sátt um niðurstöðuna eftir umrót síðustu ára. Því er það rétt ákvörðun hjá Samfylkingunni að efna til prófkjörs.
Hins vegar má efast um tímasetninguna. Það er talsverð vernd í því fyrir sitjandi þingmenn að efnt sé til prófkjörs svo löngu áður en þingkosningar fara fram. Nýir frambjóðendur þurfa þá að slíta sig að einhverju leyti úr vinnu rúmu hálfu ári fyrir kosningar og ef sæmilegur árangur næst í prófkjöri bíða í mánuðum saman eftir því hvort þeir segi alveg skilið við vinnuna.
Það má líka segja að eftir því sem nær dregur kjördegi skýrist staða flokkanna og þar með hve hraustlega þarf að hrista upp í þingliði þeirra.