Fimmtudagur 30. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 243. tbl. 16. árg.

Ferðaþjónustan færir nú fyrir því rök að verði lagður á hana 25,5% virðisaukaskattur muni almennt verða taprekstur í greininni. Sjálfsagt margt til í því. Virðisaukaskattur upp á 25,5% er alveg ofboðsleg skattheimta á útselda þjónustu.

En á meðan ákveðnar greinar eru undanþegnar skatti vaxa þær auðvitað að einhverju leyti á kostnað hinna sem þurfa að bera skattinn. Ferðaþjónustan er ekki aðeins undanþegin því að leggja virðisaukaskatt á útselda þjónustu heldur fær hún virðisaukaskatt af keypti þjónustu endurgreiddan!

Það gleymist stundum að íslensk ferðaþjónusta er ekki aðeins í samkeppni við menninguna á Ibiza og froðudiskóin í París heldur einnig við aðrar atvinnugreinar hér innanlands, og þá ekki aðeins um viðskiptavini heldur einnig starfsfólk. Hvernig á fyrirtæki sem standa þarf skil á 25,5% virðisaukaskatti af allri sinni sölu að keppa um starfsmenn við ferðaþjónustu sem þarf þess ekki, hvað þá við erlend kvikmyndagerðarfyrirtæki sem fá hluta af kostnaði sínum hér endurgreiddan?

Hugsanlega hafa þessi skattfríðindi ferðaþjónustunnar leitt af sér einhverja offjárfestingu í greininni sem mun ekki standa undir sér þegar hún fer að greiða skatta til jafns við aðra.

Að því leytinu jafnast skattfríðindi við ríkisstyrki og niðurgreiðslur sem lokka menn út í óarðbær verkefni hvar þeir sitja svo með sárt ennið þegar skattgreiðendur fá nóg af því að styrkja þá.