Laugardagur 1. september 2012

Vefþjóðviljinn 245. tbl. 16. árg.

Drög að íslenskum peningaseðlum frá árinu 1957 seljast nú fyrir stórfé á meðan seðlarnir sem ríkið gaf út hafa glatað 99,9% af verðmæti sínu.
Drög að íslenskum peningaseðlum frá árinu 1957 seljast nú fyrir stórfé á meðan seðlarnir sem ríkið gaf út hafa glatað 99,9% af verðmæti sínu.

Það er margt skrafað um þá kosti sem Íslendingar eiga um gjaldmiðil. Menn hafa fært rök fyrir ótal útgáfum af íslensku krónunni, evrunni með eða án samkomulags við Evrópusambandið, Bandaríkjadal, Kanadadal, svissneskum franka, norskri krónu, danskri krónu og jafnvel færeysku krónunni sem í gegnum tengingu við dönsku krónuna væri í raun evra.

En þarf ákvörðun um mynt að vera miðstýrð, tekin af 63 stjórnmálamönnum?

Er hugsanlegt að það sé nægjanlegt að íslenska ríkið hætti útgáfu gjaldmiðils og leggi niður seðlabanka sinn án þess að með í kaupunum fylgi ákvörðun um að „taka upp“ annan gjaldmiðil? Mega landsmenn ekki einfaldlega velja sjálfir hvaða mynt þeir nota? Vafalaust yrði einhver gjaldmiðill ráðandi í almennum viðskiptum hér en það kæmi þá í ljós með öðrum hætti en handauppréttingu við Austurvöll.

Ríkið þyrfti að sjálfsögðu eða vera tilbúið til að veita skattgreiðslum móttöku í helstu gjaldmiðlum en aðrar hindranir eru ekki sjáanlegar fyrir þessu frelsi í gjaldmiðilsmálum.