Vefþjóðviljinn 242. tbl. 16. árg.
Bankahrunið haustið 2008 hafði ekki aðeins efnahagslegar afleiðingar. Margir töpuðu peningum við bankahrunið, sumir miklum, en sumir voru jafnvel enn óheppnari og töpuðu talsverðum hluta af ró sinni og skynsemi. Auðvitað má slíkt vera afsakanlegt að einhverju leyti í skamman tíma. Gjaldþrot þriggja stórra banka, sem allir voru meðal stærstu fyrirtækja landsins, er auðvitað talsverður atburður í samtímasögunni og ekki oft sem jafn margir verða fyrir fjárhagslegu tjóni á sama tíma.
En þó bankahrunið hafi verið eftirminnilegur atburður þá varð aðeins fjármálahrun, en ekki þjóðfélagshrun, eins og Sigríður Á. Andersen, héraðsdómslögmaður, varaþingmaður og fyrrverandi ritstjórnarmaður hér í Vefþjóðviljanum, benti á í grein í Morgunblaðinu í gær. Sumir hafa reynt að nota bankahrunið sem eitthvert allsherjartromp í pólitískum deilum í þjóðfélaginu. Bankahrunið átti strax að réttlæta nýja ríkisstjórn og kosningar og þegar það hafði fengist fram var komið að stjórnarskránni, en flestir helstu meinlokmenn landsins virðast telja að bankahrunið hafi veitt þeim veiðileyfi á stjórnarskrána eða hafi á einhvern hátt opinberað einhverja þörf fyrir breytingar á henni.
Bankahrunið hafði áhrif á marga. En þjóðfélagið hrundi ekki, þótt mörgum, og þá líklega ekki síst þeim sem fyrir bankahrun hefðu þegið veigameira hlutverk í þjóðfélaginu, hefði eflaust þótt spennandi að það hefði gerst. Bankahrunið kallar ekki á nýja stjórnarskrá, nýtt flokkakerfi, ný kosningalög og alls ekki á nýjar grundvallarreglur í þjóðfélaginu. Bankahrunið kallar ekki á afnám eignarréttar, samningafrelsis, skoðanafrelsis eða annars þess sem er í raun óaðskiljanlegur þáttur frjáls þjóðfélags. Og bankahrunið er nákvæmlega engin afsökun fyrir þá sem vilja helst ekki að aðrir menn búi í réttarríki.
Einna verst er kannski hversu skilningur margra á grundvallaratriðum virðist víkja þegar bankahrunið er nefnt. Í grein sinni nefnir Sigríður að einn fréttaritari Ríkisútvarpsins hafi í fréttaviðtali spurt sérstakan saksóknara hvort upptökur af símahlerunum yrðu settar á netið, en slíkt er auðvitað fráleitt. Eins og Sigríður bendir á, þá hafa menn rannsakað alvarleg mál eins og morð og líkamsárásir og þá dettur engum slík fjarstæða í hug. En þegar kemur að bankahruninu þá er „stundum eins og ákafinn taki öll völd og jarðtengingin hverfi.“ Þannig var eftirminnilegt, þegar rætt var á Alþingi um ákæru á hendur Geir Haarde og síðar um mögulega afturköllun hennar, að ein meginástæða margra fyrir ákærunni var að þá gætu farið fram svo áhugaverðar vitnaleiðslur. Í öllum öðrum málum átta menn sig á að ákæra má aðeins vera gefin út að að uppfylltum stöngum skilyrðum um líkur á sakfellingu fyrir skýrt lagabrot. Það er fullkomlega óheimilt að ákæra menn til að fá fram vitnaleiðslur eða til að þóknast einhverri umræðu, eða til að „fá fram uppgjör“ eða af neinum öðrum slíkum ástæðum. Það vita auðvitað flestir, en þegar bankahrunið er annars vegar þá horfa svo margir fram hjá því sem þeir myndu skilja í öllum öðrum málum.
Margir töpuðu miklu fé við bankahrunið og skarpt fall íslensku krónunnar. Fé má bæta. Ef skilningur fólks á grundvallaratriðum skaðast, þá getur orðið erfiðara að bæta hann.