Mánudagur 20. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 233. tbl. 16. árg.

Fréttastofa íslenska Ríkisútvarpsins heldur ótrauð áfram.

Eins og vakin var athygli á, varð skyndileg undantekning á feiknarlegum áhuga fréttamanna á yfirvofandi mótmælafundum þegar boðað var til mótmæla gegn frumvörpum ríkisstjórnarinnar til breytingar á fiskveiðistjórnun. Ríkisútvarpið, sem fram að því hafði litið á sig sem sérstakan boðunarvettvang mótmælafunda, hafði lítinn áhuga á slíkum mótmælum en sagði þess í stað ýmsar fréttir sem miðuðu að því að draga úr trúverðugleika fundarboðenda.

En mótmæla-áhuginn á fréttastofunni vaknaði um leið og einhverjir aðrir boðuðu að þeir ætluðu að mótmæla mótmælunum. Þeir urðu auðvitað fyrsta frétt. Það var beinlínis fyrsta frétt í Ríkisútvarpinu að boðað væri til mótmæla gegn hinum mótmælunum, sem Ríkisútvarpið hafði ekki áhuga á. Langt viðtal birt við forsvarsmann mótmælanna gegn mótmælunum og þulið var yfir áheyrendum í fleiri en einum fréttatíma hversu margir væri búnir að staðfesta komu sína á „facebook“ og hversu margir segðust „kannski“ ætla að mæta.

Síðastliðinn laugardag var áhugi starfsmanna Ríkisútvarpsins á mótmælum í fullu gildi. Haldin var menningarnótt og hinir og þessir vildu vera með. Þar á meðal var trúfélagið Rússneska rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi sem nýlega minnti á umdeildar skoðanir sínar á ýmsum hópum í víðlesinni blaðaauglýsingu.

Á menningarnótt hugðist trúfélag þetta bjóða upp á fyrirlestur um rússneskar helgimyndir og kirkjubyggingarlist, sem varð einhverjum öðrum tilefni til að boða til tónlistarflutnings fyrir framan húsnæði félagsins á sama tíma.

Ríkisútvarpið sló því upp að þar væri búið að boða mótmæli. Í fréttum og á neti Ríkisútvarpsins var fólki sagt að nú skyldi mótmælt við húsakynni safnaðarins. Þeir sem kveiktu á textavarpinu þennan menningarhátíðardag sáu forsíðufyrirsögnina „Hvatt til mótmæla í dag“.