Helgarsprokið 19. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 232. tbl. 16. árg.

Af heimasíðu bandaríska tímaritsins Reason. Auglýsingar frá íslenskum fyrirtækjum birtast nú Íslendingum vítt og breitt um veraldarvefinn. Hvernig ætla íslenskir þingmenn að banna auglýsingar á íslenskum bjór á erlendum vefsíðum?
Af heimasíðu bandaríska tímaritsins Reason. Auglýsingar frá íslenskum fyrirtækjum birtast nú Íslendingum vítt og breitt um veraldarvefinn. Hvernig ætla íslenskir þingmenn að banna auglýsingar á íslenskum bjór á erlendum vefsíðum?

Frumvarp til breytinga á áfengislögum, þar sem hnykkt er á banni við áfengisauglýsingum, er nú á leið sinni í gegnum þingið. Því mun einkum ætlað að taka á auglýsingum á „léttöli“ sem kynnt er undir sama nafni og áfengara öl. Mun Neytendastofu ríkisins jafnframt verða falið að rannsaka og dæma í málum af þessu tagi og leggja á menn allt að 10 milljóna króna stjórnvaldssekt og 500 þúsund króna dagsektir.

Vefþjóðviljinn hefur auðvitað skrifað reglulega gegn banni við áfengisauglýsingum svo lengi sem hann hefur komið út. Hann hefði ætlað að venjulegt tjáningarfrelsisákvæði í vestrænni stjórnarskrá, líkt og þeirri íslensku, ætti að tryggja mönnum rétt til að segja frá þeim löglega varningi sem þeir framleiða eða selja. En hæstiréttur var ekki þeirrar skoðunar með dómi árið 1998 og því heldur löggjafinn áfram tilraunum sínum til að þagga niður í framleiðendum og seljendum áfengis. 

En þrátt fyrir dóm hæstaréttar eru þessar tilraunir líklega dæmdar til að fara út um þúfur, hvort sem áfengisauglýsingar eru kallaðar viðskiptaboð eins og í nýja frumvarpinu eða viðskiptaorðsendingar eins og í eldri útgáfu þess. Vandræðagangurinn með þetta er slíkur að menn eiga ekki orð yfir það sem þeir ætla sér að banna.

Hér sér hvert mannsbarn erlend tímarit og sjónvarpsstöðvar sem sýna áfengisauglýsingar. Vefþjóðviljinn hefur áður metið það svo að með banninu verði íslenskir fjölmiðlar af um 200 milljónum króna í auglýsingatekjur á ári.

En hefðbundin blöð og sjónvarpsrásir eru ekki það snúnasta í þessu máli fyrir bannóða þingmenn.

Erlendar vefsíður birta nú íslenskar auglýsingar þegar íslenska gesti ber að garði. Það er því orðinn raunhæfur kostur fyrir íslenska áfengisframleiðendur og –seljendur að auglýsa á sæmilega vinsælum erlendum miðlum. 

Það kæmi ekki á óvart þótt ákveðnar íslenskar vefsíður færu hreinlega af landi brott vegna þessa ástands.

Ekki veit Vefþjóðviljinn hvernig þingmenn ætla að setja undir þennan leka. En kannski kemur fram nýtt frumvarp fljótlega þar sem reynt verður að taka á slíkum viðskiptaskilaboðum, nú þegar löggjafinn hefur bæði gert tilraun til að banna viðskiptaboð og viðskiptaorðsendingar um áfengi.