Föstudagur 10. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 223. tbl. 16. árg.

Á Siglufirði vex þjónustu við ferðamenn fiskur um hrygg. Ríkisstjórnin ætlar að grípa til aðgerða.
Á Siglufirði vex þjónustu við ferðamenn fiskur um hrygg. Ríkisstjórnin ætlar að grípa til aðgerða.

Stjórnvöld hafa kynnt áform um verulega hækkun virðisaukaskatts sem leggist á selda gistingu í landinu. Skatturinn á að hækka úr 7% í 25,5%. Samtök ferðaþjónustunnar eru að sjálfsögðu æf og í Morgunblaðinu í gær sagði framkvæmdastjóri þeirra að þetta yrði „rothögg“ á ferðaþjónustuna.

Einnig var talað við framkvæmdastjórann í sjónvarpsfréttum og þar sagðist hann ekki trúa því að ríkisstjórnin myndi ráðast svo harkalega að atvinnugrein sem aflaði svo gríðarlegs gjaldeyris til landsins.

Ætli framkvæmdastjórinn sé sjálfur nýkominn úr löngu ferðalagi á framandi slóðum og hafi alveg gleymt íslenskum stjórnvöldum? Eru þetta ekki sömu stjórnvöldin og standa fyrir mikilli aðför að sjávarútveginum, undirstöðuatvinnuvegi landsins? Hvers vegna ættu þau að hlífa ferðamannaiðnaðinum?

Eins og Vefþjóðviljinn hefur nokkrum sinnum nefnt, þá eru þrjár greinar sem munar mest um þegar kemur að svonefndri gjaldeyrisöflun. Sjávarútvegur. Orkusala til stóriðju. Ferðaþjónusta. Ríkisstjórnin hefur gert mikla atlögu að hagkvæmni í sjávarútvegi. Hún vill hvergi virkja. 

Ferðaþjónustan var eftir. Nú vill ríkisstjórnin hækka skatt á gistingu úr 7% í 25,5%

Hitt er svo annað mál að auðvitað á að einfalda skattkerfið. Sé lagður á virðisaukaskattur ætti skatthlutfallið að vera eitt en ekki þrepaskipt. Það hlutfall ætti hins vegar að vera mun lægra en hærra þrepið er í dag. Að því leyti mætti hafa samúð með hugmyndum ríkisstjórnarinnar. En gallinn er bara sá, að þetta er ekki það sem vakir fyrir ríkisstjórninni. Þetta er ríkisstjórnin sem innleiddi þrepaskiptan tekjuskatt til að kreista meira fé út úr launamönnum. Þessi ríkisstjórn hefur engan áhuga á einföldun í skattheimtu, hún vill aðeins meiri skattheimtu. 

Og það er það sem tillaga hennar snýst um  í raun. Meiri peninga í ríkishítina.

En þeir sem muna stóryrði og frekjuhátt forsvarsmanna ferðaþjónustunnar þegar brúna yfir Múlakvísl tók af í fyrra, gera auðvitað ekkert með kvein þeirra nú.