Fimmtudagur 9. ágúst 2012

Vefþjóðviljinn 222. tbl. 16. árg.

Þegar kjör manna versna - og skattbyrði þeirra lækkar þar með - fagnar Stefán Ólafsson.
Þegar kjör manna versna – og skattbyrði þeirra lækkar þar með – fagnar Stefán Ólafsson.

Þegar hagstofan kynnti það síðastliðinn vetur að tekjur hefðu aldrei verið jafnari en árið 2010 hrósaði Stefán Ólafsson prófessor ríkisstjórninni fyrir vel unnin störf. 

Hann gleymdi bara að geta þess að kjör hinna verst settu hefðu heldur aldrei verið lakari frá því þessar mælingar hagstofunnar hófust árið 2004. Kjör þeirra rýrnuðu um 20% frá árinu 2008 til 2011.

Í gær fagnaði Stefán einnig þeim árangri ríkisstjórnarinnar að skattbyrði hinna verst settu hafi lækkað á undanförnum árum. En hver er ástæðan fyrir því að skattbyrðin lækkaði á árunum 2008 til 2010?

Er ekki líklegt að minnkandi launatekjur eigi þar hlut að máli? 

Skattkerfið er nú þannig að þegar menn lækka í tekjum lækkar það hlutfall sem menn greiða í skatt. Og öfugt.

Ef tekjur allra myndu skyndilega aukast hraustlega myndi skattbyrði allra snaraukast að óbreyttu skattkerfi. 

Stefán mun þá væntanlega skamma ríkisstjórnina ef hagur landsmanna vænkast og laun þeirra hækka.

Eða ekki.