Vefþjóðviljinn 221. tbl. 16. árg.
Undanfarna daga hafa fjölmiðlar flutt fréttir af ógöngum Útrásarhallarinnar, sem sumir kalla Hörpu. Hafa fáir mælt stöðu hennar bót en flestir taka fram að húsið sé þó risið og því verði að gera eins vel úr þeirri stöðu og hægt sé.
Um þá skoðun mætti margt segja, en það verður ekki gert nú. Hitt skal sagt að menn skyldu þó reyna að forðast frekari „Hörpu“-fen á næstunni.
Í dag sagði Morgunblaðið frá því á forsíðu að framkvæmdir væru hafnar við Vaðlaheiðargöng. Einnig að nú sé unnið að gerð verksamnings við fyrirtækin sem átt hafi lægsta boð í gerð ganganna.
Útrásarhöllinni og Vaðaheiðargöngum svipar um margt saman. Það er þrýst, þrýst og þrýst, þar til stjórnmálamenn láta undan. Svipaðri aðferð var beitt. Samtök um byggingu tónlistarhúss þrýstu og þóttust meira að segja vera að safna peningum sem yrðu notaðir til að byggja húsið. Svo var öllu varpað á ríkið og ekki sæst á neitt nema dýrasta hús sem mögulegt var og á dýrasta stað borgarlandsins. Þegar húsið er risið vilja menn svo ekki einu sinni borga fasteignagjöld. Norðanmenn stofnuðu sín félög og það var látið eins og einkaaðilar byggðu en svo myndu veggjöld borga allt saman. En svo var lagst á stjórnmálamenn sem létu undan og ríkið opnar veskið. Stjórnmálamenn láta eins og þeir trúi þegar þeim er sagt að útreikningar sýni að þetta sé alveg öruggt og ríkið fái allt til baka.
En þingið mátti alls ekki fá Ríkisendurskoðun til að fara yfir útreikningana.
Nú er sem sagt byrjað og það áður en samið er við verktakana.
En er þá of seint að hætta við? Nei auðvitað ekki. Það er reyndar mjög einfalt.
Félagið sem á að láta bora göngin og semja við verktakana er í meirihlutaeigu Vegagerðarinnar. Hún starfar á ábyrgð Ögmundar Jónassonar. Ef ráðherrann vill í raun standa faglega að málum, þá segir hann undirstofnun sinni, Vegagerðinni, að gæta þess að þetta félag, sem er í meirihlutaeigu hennar, semji ekki við verktaka fyrr en Ríkisendurskoðun, eða óháður aðili sem má treysta, hefur skoðað útreikningana sem að baki búa.
Skattgreiðendur hafa ekki enn tapað Vaðlaheiðarmálinu. Ögmundur Jónasson getur enn komið þeim til bjargar. Nú reynir á hvernig Ögmundur vill standa að þessu Vaðlaheiðargangamáli.