Vefþjóðviljinn 172. tbl. 16. árg.
Sumir þurfa ekki að vera lengi við völd til að komast að því að það sem þeir þurfa er einmitt enn meiri völd.
Jón Gnarr Kristinsson borgarstjóri hefur nú lýst því yfir að nauðsynlegt sé að borgaryfirvöld ráði því hvaða starfsemi sé rekin í borginni, og hvar.
Þetta sagði Jón í framhaldi af því að ráðuneyti sveitarstjórnarmála úrskurðaði að borgaryfirvöld hefðu ekki farið að lögum við meðferð umsóknar skemmtistaðar um áframhaldandi leyfi.
Borgarstjórinn, sem vill fá að ráða hvaða starfsemi er stunduð í borginni, og hvar, og vill fá auknar lagaheimildir til að banna þá starfsemi sem honum líkar ekki, er það ekki maðurinn sem í kosningabaráttunni vildi leyfa „allskonar“ að „blómstra“? Er það ekki maðurinn sem hampar fordómaleysinu og umburðarlyndinu, nýtur mikils stuðnings ungra kjósenda og er manna bleikastur í kjólnum sínum fremstur í gleðigöngunni?
En hann vill endilega fá að banna skemmtistaði sem bjóða upp á löglega starfsemi sem borgarstjóranum líkar ekki.
Hvenær ætli þeir stjórnmálamenn, sem vilja gera út á umburðarlyndis-atkvæðin, átti sig á því að umburðarlyndi snýst um að umbera það sem manni líkar ekki við? Ekki það að umbera það sem maður er ánægður með.