Fimmtudagur 21. júní 2012

Vefþjóðviljinn 173. tbl. 16. árg.

Þeim fjölgar jafnt og þétt sem gera kröfu til nafnbótarinnar umhverfisvænn. Núorðið kynna flestar ríkisstofnanir og stórfyrirtæki heims sig að einhverju leyti sem slík. 

Vefþjóðviljinn hefur til að mynda veitt því athygli að smábátaeigendur hafa lengi haldið því á lofti að veiðar þeirra séu umhverfisvænar, vistvænar eða eitthvað í þeim dúr. Það er umhverfisvænt að flytja þorsk í litlu farartæki.

Að sama skapi hefur Strætó bs. auglýst um árabil að strætisvagnarnir séu grænir og góðir fyrir umhverfið. Það er því umhverfisvænt að flytja fólk í stóru farartæki.

Svo er það sorpið. Borgaryfirvöld telja að best sé fyrir umhverfið að flytja sorp frá heimilum í að minnsta kosti í tveimur stórum ruslabílum og óteljandi litlum einkabílum. Almennt sorp úr svörtu tunnunum er víða sótt á stórum trukk klukkan sex að nóttu. Þeir sem ætla ekki að láta skarkalann frá þessum svart-tunnu-trukki trufla sig við að ná markmiði lýðheilsustofu um nægan nætursvefn og leggjast einbeittir aftur á koddann eru svo vaktir korteri síðar af trukknum sem sækir pappa úr „bláu tunnunum“. Þeir sem ekki eru með bláa tunnu eiga að stafla dagblöðum og flatbökukössum upp hjá sér og ferja á einkabíl út á næstu endurvinnslustöð.

Þannig geta allir verið umhverfisvænir. Enda er það mjög vinsælt.