Vefþjóðviljinn 144.tbl. 16. árg.
Það er eiginlega með miklum ólíkindum að nokkur maður sé atvinnulaus. Að ekki sé talað um þær þúsundir sem hafa flutt úr landi til að leita sér að vinnu, fyrst og fremst til Noregs. Þau Jóhanna og Steingrímur, Samfylkingin og Vinstrigrænir, eru nefnilega búin að kynna ótal opinberar áætlanir, sem allar hafa átt að „skapa“ mörg þúsund störf.
Nú síðast ætla þau að skattleggja undirstöðuatvinnuveg landsins um tugi milljarða og nota peninginn einmitt til að „skapa störf“ úti um allt. Fréttamenn segja frá þessu eins og ekkert sé sjálfsagðara.
En peningarnir sem Samfylkingin og Vinstrigrænir ætla að nota til að „skapa störfin“, ætli þeir komi ekki neins staðar frá?
Hvað gerist þegar sjávarútvegsfyrirtækin þurfa að borga Jóhönnu og Steingrími þúsundir milljóna króna á hverju ári? Jú, þeir peningar fara frá fyrirtækjunum, án þess að fyrirtækin fái neitt í staðinn.
Útgerð lætur vera að setja bát í slipp. Skipasmiður missir vinnuna. Háseti fær ekki launauppbót og kaupir þá ekki nýja kjólinn sem hann ætlaði að gefa konunni þegar uppbótin kæmi. Stelpan í tískubúðinni fær ekki prósentuna sem hún hefði fengið af sölunni. Hún sleppir því að panta pizzu fyrir kærastann um kvöldið. Pizzastaður segir upp sendli. Hann getur ekki staðið í því að láta sprauta bílinn. Bílasprautunarmaður fær engin viðskipti þann daginn. Hann segir upp þeim ófaglærða sem var hjá honum í hálfu starfi.
Sumir sjá ofsjónum yfir hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja. Um að gera að minnka arðgreiðslurnar svo hægt sé að skapa störf. Eftir lagabreytingar fer rekstur sjávarútvegsfyrirtækis úr hagnaði í tap. Eigandinn borgar sér ekki arð. Hann sleppir því að ráða smið til að stækka hjá sér pallinn. Hann afpantar líka heita pottinn sem átti að fara í garðinn. Pípulagningarmaðurinn sem ætlaði að koma og tengja, hann getur sleppt því.
En píparinn, pizzasendillinn, skipasmiðurinn og stelpan í tískubúðinni þurfa ekki að hafa áhyggjur. Jóhanna, Steingrímur, Samfylkingin og Vinstrigrænir eru á fullum krafti að skapa störf.
Svona á milli þess sem þau breyta stjórnarskránni.