Þriðjudagur 22. maí 2012

Vefþjóðviljinn 143. tbl. 16. árg.

Nú verður Vefþjóðviljinn að draga til baka þá skoðun sína að áhrifamestu þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna séu gagnslausir. Nú hafa þeir nefnilega sýnt mátt sinn og megin og beygt ríkisstjórnina í duftið.

Stjórnarandstaðan var að semja um að hætta baráttunni gegn tillögum ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæði um ekkert, í tengslum við hið skammarlega starf „stjórnlagaráðs“ til eyðileggingar stjórnskipunar landsins.

Það er ekkert nýtt að núverandi stjórnarandstaða semji um að hætta baráttu gegn einhverju máli. Hún hefur gert það varðandi hvert einasta mál sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á. En hingað til hefur stjórnarandstaðan alltaf gefist upp, án þess að fá neitt fyrir það.

Núna er hins vegar annað uppi á teningnum, enda menn komnir með þriggja ára bardagareynslu í stjórnarandstöðu. Nú setja menn hnefann í borðið og hætta ekki baráttunni nema fá það í staðinn að…

…frumvarp um náttúruvernd verði tekið að nýju til umfjöllunar í þingnefnd.

Já, svona á að gera þetta. Það er greinilega ekki lengur nauðsyn á að skipta þeim næstum öllum út í næstu kosningum. Þetta er stórsigur stjórnarandstöðunnar og er á pari við ef samið hefði verið um að Steingrímur J. Sigfússon mætti til vinnu með blátt bindi en ekki gult á föstudaginn.

Enda mun stjórnarandstaðan sennilega gera það að kröfu sinni, næst þegar hún gefst upp. Nú er hún komin á bragðið og nú fær ekkert stöðvað hana.

Það er furðulegt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins rói nú öllum árum að því að ekki verði haldin prófkjör fyrir næstu kosningar. Hvað ættu slíkir afreksmenn að óttast?