Vefþjóðviljinn 142. tbl. 16. árg.
Á því hefur verið vakin athygli að fyrir síðustu þingkosningar boðaði Framsóknarflokkurinn að efnt yrði til stjórnlagaþings.
Nú er spurt hvers vegna flokkur sem vildi stjórnlagaþing sé andvígur því að senda tillögur svonefnds stjórnlagaráðs í „ráðgefandi skoðanakönnun“ með þjóðarinnar.
Það er nú það.
Ætli Framsóknarmenn hafi hugsað stjórnlagaþingið sitt svona? Fyrst leika þúsund manns sér með stikkorð á gulum og bleikum miðum undir forystu hópstjóra í íþróttasal. Svo verður efnt til „persónukjörs“ þar sem 150 kjósendur mæta fyrir hvern frambjóðanda, en þótt aðeins úrvalslið kjósenda hafi mætt skilja fáir hvernig kosningin fer fram og aðeins tveir frambjóðendur hvernig talið verður upp úr pappakössunum. Hæstiréttur ógildir svo kosninguna vegna margvíslegra vankanta. Þá tekur Alþingi sig einfaldlega til að skipar þá sem hlutu ógilda kosningu til stjórnlagaþings í stjórnlagaráð. Og nú á að spyrja út og suður um ritgerðina frá stjórnlagaráðinu með skoðanakönnun sem kosta mun 250 milljónir króna fyrir utan kostnað og tímasóun almennra kjósenda.
Já kannski var þetta það sem Framsóknarmenn dreymdi um veturinn 2009.
Eða ekki.
Er ekki miklu líklegra að hugmyndir þeirra um stjórnlagaþing hafi verið angi af sama fátinu og þegar þeir leiddu Jóhönnu og Steingrím til valda með því að verja minnihlutastjórn þeirra þennan uppnámsvetur?