Helgarsprokið 20. maí 2012

Vefþjóðviljinn 141. tbl. 16. árg.

Jóhanna Sigurðardóttir boðar að menn komist í jarðgöngum á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar takist henni að eyðileggja kvótakerfið.
Jóhanna Sigurðardóttir boðar að menn komist í jarðgöngum á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar takist henni að eyðileggja kvótakerfið.

Það er sagt að útgerðarmenn vilji verja sína hagsmuni með auglýsingum gegn breytingum þeim sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera á stjórn fiskveiða.

Nú hvað annað?

Það er hins vegar ekki alltaf jafn augljóst að margir þeir sem kynnt hafa undir ósátt um kvótakerfið eiga einnig hagsmuna að gæta.

Þar má finna til að mynda finna ýmsa sem seldu kvótann sinn fyrir gott verð en vilja svamla frítt inn í kerfið aftur í gegnum ýmsa „potta“ og „ívilnanir“, „strandveiðar“ og „byggðaaðgerðir“. 

Þar eru einnig þeir sem naga sig í handarbökin fyrir að hafa selt of snemma, áður en kvótakerfið var fest í sessi og skilaði slíkri hagræðingu að kvótinn varð mikils virði. Þeir vilja einnig komast inn þótt þeir hafi selt miðann sinn.

Nú svo eru það stjórnmálamennirnir sem vilja auka áhrif sín, hvort sem er til langs tíma eða bara til að redda sér í gegnum næstu kosningar, eins og Jóhanna Sigurðardóttir upplýsti svo vel í grein í Fréttablaðinu í gær þar sem hún boðar að hún muni geta gert fleiri göt á fjöll, tvöfaldað framlög ríkisins til kvikmyndagerðar og lagt alls kyns öðrum málefnum lið fái hún því framgengt að eyðileggja kvótakerfið.

Þessi grein Jóhönnu er blygðunarlaus tilraun til að kaupa fylgi við pólitíska stefnu með peningum annarra. Í greininni býður hún alls kyns hópum hlutdeild í því fé sem hún ætlar sér að ná af ákveðnum mönnum. Hún upplýsir jafnframt að Guðmundur Steingrímsson hafi „lag gjörva hönd á plóg“ þegar ákveðið var hvaða hópa skyldi gert vel við fyrir skyndigróðann sem ríkisstjórnin væntir af því að splundra kvótakerfinu. 

Forystumenn ríkisstjórnarinnar þykjast hneykslaðir á því að útgerðarmenn og aðrir sem sinna störfum tengdum sjávarútvegi skuli nota eigin fjármuni til kynna sín sjónarmið og verja sína hagsmuni.

En hvað með þá sem nota annarra manna fé til þess arna?