Fimmtudagur 10. maí 2012

Vefþjóðviljinn 131. tbl. 16. árg.

Portus, Situs, Custos, Hospes, Ago, Stæði, Totus. Menn kunna útrásarflétturnar í Hörpunni.
Portus, Situs, Custos, Hospes, Ago, Stæði, Totus. Menn kunna útrásarflétturnar í Hörpunni.

Útrásarbautinn Harpa er einhver versti löðrungur sem íslenskum skattgreiðendum hefur verið réttur. Í 35 ár munu þeir leggja ferlíkinu til um þúsund milljónir króna á hverju einasta ári. Ekki hvarflar að nokkrum manni að þar með verði skattgreiðendur lausir allra mála. Þá verður vafalaust gerður nýr „samningur“ milli ríkisins og Hörpunnar um að þau seilist áfram í vasa þriðja aðila, skattgreiðenda.

Hér hafa lög sem skylda opinberar stofnanir til að upplýsa um nöfn umsækjenda um störf stundum verið gagnrýnd. Þessi skylda getur fælt hæfa umsækjendur frá, ekki síst fólk sem er í starfi annars staðar en hjá hinu opinbera.

En hvað um það. Einhver hefði ætlað að þegar „samningur“ var gerður milli Hörpunnar og ríkis og Reykjavíkurborgar um að Harpan fengi áskrift til áratuga að fé úr sjóðum hins opinbera að hún þyrfti að fara að þeim lögum sem gilda um starfsemi opinberra stofnana.

Í frétt Morgunblaðsins í gær upplýsir Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Totusar, sem er eitt af útrásarfélögunum sem Harpan er vafin inn í, að félagið sé nú bara prívatfélag og beri því engin skylda til að upplýsa um starfsemi sína. Því muni ekki verða skýrt frá því hverjir sóttu um starf forstjóra Hörpunnar.

Er Vefþjóðviljinn einn um að þykja langatöng vera ein á lofti?