Vefþjóðviljinn 125. tbl. 16.árg.
Meðal þess sem bæði er mjög rætt og mjög misskilið er stjórnarskrá Íslands. Sumir misskilja ýmis ákvæði hennar, iðulega vegna þess að þeir horfa eingöngu á stök ákvæði en gleyma öðrum. Aðrir misskilja stjórnarskrána sem slíka.
Stjórnarskrá geymir grundvallarlög ríkis. Grundvallaratriði sem eiga að standa óháð tíðaranda og tískusveiflum. Stjórnarskrá á ekki að breyta nema ljóst sé að brýn nauðsyn krefji. Kannski einu sinni á öld. Hugsanlega mun sjaldnar.
Það að bankar verði gjaldþrota kallar til dæmis ekki á stjórnarskrárbreytingar. Ekki heldur þótt nokkurra ára suð í hópi álitsgjafa geti um stundarsakir vakið skoðanakannanastuðning við einhverja stjórnmálakröfu. Stjórnarskrá geymir grunnreglur sem ekki haggast við slíkt.
Stundum er sagt að stjórnarskráin hafi verið brotin með hinu og þessu. Að lög brjóti stjórnarskrána. Slíkt gerist þó í raun ekki.
Lög brjóta ekki stjórnarskána. Ef menn hugsa sér nýsett lög sem glerbút þá er stjórnarskráin úr demanti. Menn geta nuddað glerinu og demantinum saman, en það er alveg ljóst hvort rispast og hvort stendur óhaggað. Rekist lög á stjórnarskrána þá víkja lögin en ekki hún.
Nú telja menn að tilskipun Evrópusambandsins um að æðsta vald á ýmsum sviðum á Íslandi verði fært til erlendra embættismanna standist ekki stjórnarskrána. Viðbrögð fjölmiðlamanna og embættismanna í ráðuneytum verða þá auðvitað sjálfkrafa þau að breyta þurfi stjórnarskránni. Fréttablaðið skrifar heilan leiðara um það í dag.
En hvers vegna á að breyta stjórnarskránni vegna þess að erlend tilskipun stangast á við hana? Er virkilega svona illa komið fyrir Íslendingum að þeir taka erlendar tilskipanir framar sinni eigin stjórnarskrá? Hvers vegna á að breyta stjórnarskránni til þess að „heimila framsal valds“ til ókosinna starfsmanna erlendra stofnana? Og hvar halda menn að slíkt framsal endi?
Það endar auðvitað aldrei, svo lengi sem Samfylkingarmenn stýra ríkisstjórn og opinberri umræðu. Og þegar þeir hafa endurheimt Bessastaði þá verður ekki einu sinni fyrirstaða þar lengur.