Vefþjóðviljinn 120. tbl. 16. árg.
Vinstri stjórninni á Spáni var varpað á dyr með látum í kosningum síðasta haust. Hún var sökuð um sleifarlag árin fyrir fjármálakreppuna og ekki síður gagnrýnd fyrir viðbrögðin við kreppunni. Því er ekki að neita að nokkrar hagstærðir á Spáni eru með ólíkindum nú þegar sósíalistar Zapateros eru horfnir frá völdum.
Nær fjórði hver vinnufær Spánverji er atvinnulaus, en leita þarf aftur um 18 ár eftir öðrum eins hryllingi á vinnumarkaði. Þvílíkt þekkist jafnvel ekki á Grikkalandi eða meðal annarra evruríkja, sem hafa þó reynt ýmislegt í atvinnumálum. Ibex35 hlutabréfavísitalan hefur lækkað um 35% undanfarið ár og um 55% frá því hún náði hámarki síðla árs 2007. Húsnæðisverð hefur fallið um 25%.
Lánshæfismat ríkissjóðs Spánar var lækkað í vikunni. Að vísu voru það hin virtu lánsmatsfyrirtæki sem það gerðu, en skuldatryggingaálag Spánar hefur einnig hækkað.
Það sem menn óttast mest að gerist næst er að húsnæðisverð haldi áfram að falla og taki bankakerfið með sér í fallinu. Fasteignaverð lækkaði um helming frá hámarki á Írlandi og það gæti einnig gerst á Spáni. Því er haldið fram að 13% íbúða á Spáni standi auðar. Ríkissjóður Spánar þarf nú þegar að sæta afarkostum við endurfjármögnun skulda sinna og óvíst hvernig lánveitendur myndu bregðast við óskum um að lána Spánverjum til að halda bankakerfi sínu á floti, nema það sé nú þegar hluti af vaxtakjörunum.
Hér hefur áður verið vitnað til skrifa Jesús Huerta de Soto prófessors í hagfræði við háskóla Juan Carlos konungs í Madrid. Hann lýsti því haustið 2008 hvernig fasteignabóla varð til á Spáni í kjölfar upptöku evrunnar:
Það má læra ýmislegt af ástandinu á Spáni. Efnahagur Spánar blómstraði að hluta vegna raunverulegra umbóta eins og aukins frelsis í stjórnartíð José María Aznar. Engu að síður átti innistæðulaus aukning peningamagns stóran þátt í uppsveiflunni. Aukning peningamagns á Spáni var nær þrefalt meiri en í Frakklandi og Þýskalandi. Þegar vextir lækkuðu á Spáni vegna þátttöku í myntsamstarfinu voru viðbrögðin eins og vænta mátti: mikið framboð af ódýrum peningum úr spænskum bönkum, einkum til að fjármagna spákaupmennsku á fasteignamarkaði. Þetta lánsfé bjuggu spænsku bankarnir til ex nihilo. Stjórnendur Seðlabanka Evrópu létu sem ekkert væri. Þegar verðbólga gerði vart við sig vék seðlabankinn hins vegar ekki frá stefnu sinni og lækkaði ekki vexti þótt ýmis ríki myntbandalagsins, eins og Spánn, standi nú frammi fyrir því að flestar fjárfestingar liðinna ára í húsnæði hafi verið byggðar á röngum forsendum. Við þessum ríkjum blasir löng og ströng leiðrétting og aðlögun að raunveruleikanum.
Það reyndust orð að sönnu.
Það er áhugavert að bera Ísland og Spán saman að þessu leyti. Á Íslandi varð fasteignabóla þótt landið tæki ekki upp lágvaxtamynt eins og evruna. Seðlabanki Íslands hækkaði vexti þvert á móti upp í ótrúlegar tölur, sem ýtti mönnum út í lántöku í erlendum lágvaxtamyntum frekar en að draga úr skuldsetningu. Óþarft er svo að fjölyrða um húsnæðisbóluna í Bandaríkjunum.
Það gengur því ekkert ofboðslega vel hjá ríkisseðlabönkunum að halda jafnvægi á þessum mikilvæga markaði. Enda bendir margt til þess að upptökin séu í seðlabönkunum sjálfum.