Vefþjóðviljinn 114. tbl. 16. árg.
Niðurstaða landsdóms í máli meirihluta alþingis gegn Geir Haarde er einföld. Um allt sem máli skiptir er Geir sýknaður af ákæru. Sakarkostnaður er allur felldur á ríkið.
Hann er sakfelldur fyrir fráleitt ákæruatriði sem ekki verður með neinum gildum rökum haldið fram að hafi skipt nokkru máli.
Það var ekki bókað í fundargerðir ríkisstjórnar að þar hefði hættuleg staða bankanna verið rædd á fundi.
Heldur einhver að það hefði einhverju breytt þótt haldinn hefði verið sérstakur fundur með Guðlaugi Þór, Kristjáni Möller, Þórunni Sveinbjarnardóttur og þeim hinum, sem ekki er til bókun í fundargerð um að hafi rætt vanda bankanna?
Hvað ætli menn segðu ef Geir hefði efnt til tólf manna ríkisstjórnarfundar um vanda bankanna, upplýsingar af fundinum hefðu lekið út og bankarnir hrunið, langt á undan öðrum bönkum á Vesturlöndum? Ætli Geir hefði ekki einmitt verið sakaður um fullkomið ábyrgðarleysi við meðferð allra mikilvægustu upplýsinga?
Þegar Vefþjóðviljinn ræddi tillögu um ákæru á hendur fjórum ráðherrum sagði hann að lágmarkskrafa væri að þeir sem að ákærunni stæðu myndu leggja eigin störf undir. Yrði ákærunum vísað frá eða Geir sýknaður af þeim, þá segðu þeir þingmenn, sem að ákærunum stæðu, af sér þingmennsku.
Meirihlutinn knúði fram ákæru vegna sex ákæruliða. Fimm var vísað frá eða sýknað af þeim. Engum manni dettur í hug að málið hafi nokkurn tímann snúist um þann sjötta. Í þrjú og hálft ár frá bankahruni hafa menn æpt alls kyns hluti sem stjórnvöld áttu að hafa gert af sér. Enginn hefur haldið að það að halda ekki ríkisstjórnarfund og bóka í fundargerð hafi verið vandamálið.
Þegar þetta blasir við, þá blasir við hver staða þeirra þingmanna er nú, sem efndu til þessarar ákæru.
En svo allrar sanngirni sé gætt, þá verður að viðurkenna að öðru máli gildir um þá sem í verki snerist hugur og reyndu að bæta fyrir mistök sín. Menn eins og Ásmundur Einar Daðason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Jón Bjarnason, Sigurður Ingi Jónsson og Ögmundur Jónasson – og meira að segja að nokkru leyti Atli Gíslason, hver sem hefði trúað því í upphafi.