Helgarsprokið 22. apríl 2012

Vefþjóðviljinn 113. tbl. 16. árg.

Það er mikilvægt að þeir stjórnmálamenn sem máli skipta komi hreint fram. Kjósendur vita þá fyrir hvað þeir standa, hvers má af þeim vænta og hvað má óttast. Þessi eiginleiki er ekki sérlega áberandi hjá flestum þeim sem fara með æðstu völd í landinu í dag. Undantekning þar er Ögmundur Jónasson, sem oft virðist hreinni og beinni en margir samherja hans, hvað sem segja má um stjórnmálaskoðanir Ögmundar.

Nýlega var Ögmundur í viðtali við Viðskiptablaðið og sýndi þá lesendum inn í hugsunarhátt vinstrimannsins. Að mati Ögmundar á hin unga 21.öld að vera öld „almannaréttar“ en ekki „séreignarréttar“. Honum þykja drög „stjórnlagaráðs“ að nýrri stjórnarskrá landsins ekki vera „nógu róttæk“ því þar sé einkaeignarrétturinn ennþá varinn, en það sé „nokkuð sem á að mínu mati ekki heima inni í 21. öldinni. Sú öld er öld almannaréttar.”

Þegar hugsað er til þess að sá sem svo mælir er hvorki óður skæruliði né Karl heitinn Marx heldur innanríkisráðherra í vestrænu lýðræðisríki, fer líklega um marga. En menn þurfa ekki að láta sér bregða. Ögmundur Jónasson segir hér hreinskilnislega það sem ótalmörgum félögum hans finnst, hvort sem þeir viðurkenna það fyrir sjálfum sér og öðrum.

Fyrir hinum dæmigerða vinstrimanni skiptir einstaklingurinn oft svo sáralitlu. Vinstrimönnum finnst yfirleitt afar hvimleitt að tilraunir þeirra til að laga þjóðfélagið að heimsmynd vinstrimannsins strandi á því að einhver einstaklingur eigi bara einhver réttindi. Vinstrimanninum finnst að einstaklingurinn eigi, sem þægt tannhjól í þjóðfélagsvélinni, að spila með og vera ekki með múður. 

Vinstrimaðurinn talar og talar um „hagsmuni heildarinnar“, um „þjóðina“, um „samfélagið“. Og af því að hann er í sífellu með þessi hugtök á vörunum þá finnst vinstrimanninum í raun að hann eigi að fá sitt fram. Einhver réttindi annarra geti ekki verið ríkari „hagsmunum samfélagsins“.

Í stóru sem smáu birtist það að vinstrimaðurinn telur í raun hinn almenna mann vera númer en ekki mann. Þess vegna sér vinstrimaðurinn ekkert að því að ríkið ráðstafi lífi þessa almenna manns í sem flestum atriðum. Ákveði fyrir hann um hvað hann megi semja við aðra, hvað hann má leggja sér til munns, hvaða skoðanir hann má aðhyllast opinberlega, hvaða laun hann má semja um við starfsmenn sína, hvernig hann fer milli staða, hvaða ósiði hann má hafa ef þá nokkra og þannig má áfram telja. 

Ef vinstrimenn mega ráða þá mun hið opinbera ráðskast með stærri og stærri hluta af lífi hvers manns. Ekki aðeins í launaumslaginu heldur á flestum sviðum hins daglega lífs kemur ríkið og skiptir sér af. 

Ögmundur Jónasson myndi ekki afnema einstaklingsfrelsið allt í einu vetfangi, jafnvel þótt hann fengi aðstöðu til. Sama má eflaust segja um flesta samherja hans. En þeir myndu þrengja að því aftur og aftur, jafnt og þétt. Þeir myndu aldrei hætta ótilneyddir.

En þeir gera þetta í áföngum. Margir þeirra telja vafalaust í einlægni að þeir vilji aðeins gera nokkrar „úrbætur“ en svo megi láta staðar numið. En það yrði ekki þannig. Vandamálið er í hugarfarinu. Vinstrimanninum finnst maðurinn vera númer en ekki frjáls einstaklingur. Þess vegna er reynt að hafa vit fyrir honum með valdboði á nýjum og nýjum sviðum. Í gær var honum bannað að leyfa reykingar í eigin húsum. Í dag er honum skipað að hjóla með hjálm. Á morgun verður honum bannað að spila póker. Hærra og hærra hlutfall launa hans verður tekið um hver mánaðamót og stjórnlagaþing haldið fyrir peninginn. Svo verður eignarréttur einstaklingsins afnuminn.

En bara að litlu leyti. Það verður sett þak. Allt sem er undir þakinu verður tryggilega varið eins og áður og menn geta alveg treyst því að það þak verður aldrei lækkað.

Og svo verður það lækkað.