Vefþjóðviljinn 109. tbl. 16. árg.
Þær reglur sem settar hafa verið á undanförnum árum um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi og fjárhagslega hagsmuni stjórnmálamanna eru fyrst og fremst til marks um hræsni og sýndarmennsku. Þingmenn gefa til dæmis hátíðlega upp að þeir sitji í „hundrað ára afmælisnefnd Höfða“ eða hafi „setið ráðstefnuna Women, peace and security“ í boði Nato, en nefna ekki einu orði skuldastöðu sína, þó hún sé augljóslega mun frekar til þess fallin að hafa áhrif á störf manna og hvernig þeir beita sér.
Um þetta hefur Vefþjóðviljinn margoft fjallað.
Frambjóðandi til embættis forseta Íslands sendi nýlega frá sér yfirlýsingu um að stofnaður hefði verið kosningasjóður framboðsins. Í yfirlýsingu frambjóðandans sagði að hvorki frambjóðandinn né maður hennar muni „fá upplýsingar um hverjir það eru sem gefa fé, einungis hver staða sjóðsins er hverju sinni.“
Þetta á eflaust að sýna hvað frambjóðandinn ætlar að vera öllum óháður. En í raun sýnir þetta aðra hluti og vekur til dæmis strax spurningar:
Í fyrsta lagi: Hvers vegna treystir frambjóðandinn sjálfum sér ekki til að vera óháður þeim sem styrkt hafa framboðið?
Í öðru lagi: Nú þegar frambjóðandinn hefur viðurkennt að hann megi ekki vita hverjir leggja framboðinu lið með fjárframlagi, hvernig er þá með annan stuðning við frambjóðandann? Framboð til forseta kostar tugi milljóna króna. Hundrað þúsund krónur til eða frá breyta þar engu. En það getur munað mun meira um öflugan sjálfboðaliða, einhvern sem situr við símann, skrifar í blöð, bloggar og hamast fyrir frambjóðandann. Ef frambjóðandi má ekki fá að vita hverjir leggja inn á reikninginn, má hann þá fá að vita hverjir eru duglegustu stuðningsmennirnir? Má hann vita hver situr við símann, hringir í fyrirtæki og halar inn milljónir? Fær hann að vita hverjir sitja í fjármálastjórn framboðsins?
Og ef frambjóðandinn má ekki fá að vita hverjir styrkja hann, og þá auðvitað ekki heldur fá að vita hverjir berjast fyrir hann af lífi og sál, má frambjóðandinn þá nokkuð fá að vita hverjir berjast fyrir aðra frambjóðendur? Ef í raun er hætta á að frambjóðandinn sé ekki óháður gagnvart þeim sem gaf honum hundrað þúsund krónur, hvernig er frambjóðandinn þá óháður gagnvart þeim sem barðist eins og ljón fyrir hann, eða gagnvart hinum sem barðist af krafti fyrir annan frambjóðanda?
Að kosningum loknum mun ríkisendurskoðun birta nöfn þeirra lögaðila sem veitt hafa frambjóðendum fé og það verður fréttaefni. Hvernig ætlar forseti að komast hjá því að sjá þær fréttir?