Vefþjóðviljinn 110. tbl. 16. árg.
Frá bankahruninu 2008 hefur Vefþjóðviljinn stundum reynt að koma orðum að því með einföldum hætti hvað var að í fjármálakerfi Vesturlanda fyrir hrunið. Á dögunum rakst hann svo á setningu sem hlýtur að koma til greina sem klárasta skýringin á meininu sem felldi mörg hundruð banka á nokkrum misserum.
Hallur Magnússon hefur setninguna sem kjörorð á bloggi sínu á Eyjunni.
Frelsi með félagslegri ábyrgð!
Öllu nær verður ekki komist í því að lýsa brestunum í fjármálakerfinu með fáum orðum. Fjármálafyrirtækin höfðu nægilegt frelsi til að taka mikla áhættu í von um ávinning í hlutafalli við fífldirfskuna. Þetta gekk um stund og stjórnendur og hluthafar nutu ríkulega. Þegar gaf á bátinn tók félagslega ábyrgðin við og skattgreiðendur voru sendir á vettvang með peningana sína.
Það versta er að þrátt fyrir allar yfirlýsingar stjórnmálamanna um að „þetta megi ekki endurtaka sig“ er kerfið óbreytt að þessu leyti, það er áfram félagsleg ábyrgð á frelsinu. Ríkið er áfram lánveitandi til þrautarvara – greiðir skuldir banka sem eiga ekki laust fé. Ríkið lofar sem aldrei fyrr að innstæður sparifjáreigenda séu tryggar – jafnvel þótt þær hafi tapast.
En besta lesningin um hlutverk ábyrgðar í bankahruninu er hins vegar bók Gunnlaugs Jónssonar, Ábyrgðarkver, sem kom út nýverið og fæst í bóksölu Andríkis.