Fimmtudagur 5. apríl 2012

Vefþjóðviljinn 96. tbl. 16. árg.

Kenningin sem boðuð hefur verið í bloggheimum, útifundum og ríkisútvarpinu frá hruni er að með því að fjölga reglum og auka opinbert eftirlit megi koma í veg fyrir gjaldþrot banka. Það er raunar undarlegt að þessu heilræði skuli ekki beint að öðrum atvinnugreinum einnig því hvert sem litið er má sjá gjaldþrota fyrirtæki, eigendum, starfsmönnum, lánadrottnum, birgjum og skattheimtumönnum til tjóns og ama.

Sönnunin sem fylgir þessari kenningu er að ríkið hafi „sleppt hendinni“ af bönkunum með einkavæðingu þeirra. Gríðarlegt taumleysi atarna, að einkavæða síðustu ríkisbanka í Evrópu, fyrrum kommúnistaríkja Austur-Evrópu þar með talinna. Því fór sem fór.

En hvernig getur ríkið haft sem tryggast eftirlit með fjármálafyrirtækjum? Er það ekki með því að eiga hreinlega fyrirtækin, skipa þeim stjórn og setja þeim strangar reglur um allir lifi hamingjusamir upp frá því?

Íslenska ríkið á og hefur rekið Íbúðalánasjóð. Ríkið skipar honum stjórn og setur reglur. Er þá ekki allt klappað og klárt?

Eftir hrunið þurfti sjóðurinn 30 milljarða króna ríkisaðstoð, andvirði einnar Útrásarhörpu, til viðbótar við alla þá óbeinu aðstoð sem felst í eignarhaldi ríkisins. Nú berast svo fréttir af því að sjóðinn vanti 10 þúsund milljónir til viðbótar til að ná markmiði um eiginfjárhlutfall. Og hvar skyldi þetta markmið vera sett? Jú auðvitað í reglugerð!