Miðvikudagur 4. apríl 2012

Vefþjóðviljinn 95. tbl. 16. árg.

Í ársbyrjun 2009, þegar efnt var til óeirða til að skipta um ríkisstjórn í landinu, var flestu hugsanlegu eldsneyti mokað á bálið í ákafa. Eitt af því var, að „skilningsleysi“  stjórnmálamanna á „þeim málum sem brenna á fólki“ sæist best á því að fyrsta mál á dagskrá þingsins eftir jólaleyfi, væri frumvarp sem lengi hafði verið til meðferðar og var um áfengissölu í matvöruverslunum. Þetta var æpt dögum saman og heyrist meira að segja stundum enn rifjað upp í bloggskrifum.

Allt var þetta auðvitað ósanngjarnt, eins og fleira sem æpt var þessa daga og bergmálað í umræðuþáttum og fréttatímum. Röð frumvarpa á dagskrá fyrsta fundar í janúar sagði nákvæmlega ekkert um forgangsröðun stjórnvalda, enda hefði einn málfundurinn enn á þingi engu breytt. En þetta gagnaðist í áróðrinum.

Kannski fara sömu æsingamenn aftur á stað núna, og halda ræður um skilningsleysi og ranga forgangsröðun á þingi. „Skjaldborgin“ er nefnilega ókominn enn, og „úrræðin“ frá stjórnvöldum hafa reynst gagnslaus flestu venjulegu fólki.

Og hvað vilja þingmenn þá fá rætt? Jú, þingmenn Hreyfingarinnar, að ógleymdum Guðmundi Steingrímssyni, hafa lagt til áríðandi tillögu um að alþingi álykti „að það viðurkenni þjóðarmorð á Armenum árin 1915–17 og virði minningu þeirra Armena sem urðu fórnarlömb þess glæps gegn mannkyni.“ 

Hvernig væri nú að þeir sem hneyksluðust sem mest á röðun á dagskrá þingfundar í janúar 2009 láti nú duglega í sér heyra. Það mætti jafnvel halda útifund. Fréttastofa Ríkisútvarpsins myndi auglýsa fundinn í fréttatímum dögum saman fyrirfram og senda svo mann á staðinn sem myndi leiðbeina fundarmönnum um hvert þeir ætluðu að fara næst.