Vefþjóðviljinn 94. tbl. 16. árg.
Í dag kom til sölu í Bóksölu Andríkis bókin Ábyrgðarkver – Bankahrun og lærdómurinn um ábyrgð eftir Gunnlaug Jónsson.
Hér er á ferðinni stórmerkilegt rit, skrifað af yfirvegun og þekkingu á efninu. Ekki er verra að á milli kafla eru skemmtilegar dæmisögur tengdar efni þeirra.
Bókin er í fyrsta lagi merkileg fyrir þá sök að hún leitar skýringa á bankahruninu í fjármálakerfinu sjálfu og umgjörð þess, reglunum sem um það giltu og eftirlitinu með því – en ekki hjá tilteknum mönnum. Það hefur nefnilega takmarkað gildi að benda á einstaka leikendur þegar sviðið hefur hrunið undan þeim. Að þessu leyti er bókin dásamlega þvert á tíðarandann. Já það er hægt að koma ákveðinni hugsun til skila án stóryrða. Sjálfsdáleiðslutautið „hér varð auðvitað hrun“ dugar líka skammt gegn vönduðum rökstuðningi af þessu tagi.
Þessi ópersónulega nálgun gerir bókina mun eigulegri grip en ýmis önnur rit um bankahrunið. Hún mun einnig auðvelda mörgum lestur bókarinnar og jafnvel veita einhverjum kærkomið orlof frá því að hafa manngarminn sem þeir kenna um allt saman á sífelldu iði í heilabúinu.
Gunnlaugur gerir ákaflega góða grein fyrir þeim sífellt auknu ríkisafskiptum sem einkarekin fjármálafyrirtæki sættu á aldarfjórðungnum fyrir hrun. Um leið var ábyrgð færð frá bankamönnum og viðskiptavinum þeirra til ríkisins eða út á einskismannsland, líkt og regluverk um innstæðutryggingar er gott dæmi um. Ríkið setti lög um innstæðutryggingar og stofnaði sérstakan innstæðutryggingasjóð en tæpum fjórum árum eftir bankahrunið er enn deilt um hver, ef einhver, hafi borið ábyrgð á innstæðum í Landsbankanum.
Líkt og titillinn ber með sér er það meginefni bókarinnar hvernig ábyrgð dreifist og hve mikilvægt það er að hún sé skýr.
Erindi þessa bókarkvers felur í sér von. Vonin felst meðal annars í því að hrunið, sem öllu virtist breyta til skamms tíma, hefur ekki breytt þeim sannindum að frelsi og ábyrgð borga sig enn. Ranglega hefur verið sagt að nú sé frelsið fallið, gamla Ísland, og reisa þurfi nýtt Ísland. Oft er gefið í skyn að það nýja land þurfi að vera sósíalískt eða hálffasískt, án þess að þau orð séu notuð, þar sem ríkið þurfi að láta til sín taka. Augljóst má vera orðið að ekkert er fjær sanni. Hrunið staðfestir gömul og góð gildi sem flestum eru kunn, að hver sé sinnar gæfu smiður og fólk fari jafnan betur með eigið fé en annarra. Við þurfum ekki að fórna frjálsum viðskiptum og samskiptum, sem hafa skapað mikla velmegun fyrir okkur, því að þeim var ekki um að kenna. Við þurfum til dæmis ekki að hækka skatta í óbærilegar hæðir, því að háir skattar eru aðeins stærri skammtur af því sama eitri og felldi íslensku bankana, eitrinu sem felst í afnámi persónulegrar ábyrgðar – að útvaldir fari með eignir annarra.
Greiningin Gunnlaugs á reglum um fjármálastarfsemi og skýr framsetning hljóta að marka ákveðin skil í umræðunni um þau mál. Enginn sanngjarn maður getur haldið því fram að slakað hafi verið á reglum eða eftirliti eftir að hafa séð sögulegt yfirlit löggjafar um fjármálastarfsemi í viðauka bókarinnar. Þær upplýsingar sem þar koma fram á svo kláran hátt geta vart verið annað en sláandi fyrir þá sem galað hafa „hér voru engar reglur.“
Afskipti og tilskipanir ríkisins slæva ekki aðeins ábyrgðartilfinningu bankamanna og viðskiptavina þeirra. Ný fyrirtæki eiga erfitt með að brjótast í gegnum reglugerðafrumskóginn. Reglurnar sem sagðar eru vernda litlu viðskiptavini fjármálafyrirtækjanna eru í raun til verndar stóru fjármálafyrirtækjunum sjálfum.
Hið mikla reglugerðabákn virkar almennt eins og hringamyndun þar sem með því eru reistar hömlur við að ný fjármálafyrirtæki geti hafið rekstur og viðskiptavinir þeirra fært viðskipti sín. Þannig minnkar samkeppni og fjölbreytni. Samkeppni er ekki aðeins nauðsynleg til að hvetja banka til að vinna í þágu neytenda, heldur felur samkeppnin í sér tilraunastarfsemi sem er stöðvuð með einu samræmdu regluverki. Einn aðili, ríkið, telur sig vita betur en allir aðrir. Fólk hefur hins vegar misjafnar hugmyndir um áhættu og hvaða þjónustu bankar eigi að veita. Fólk verður að fá að leita sjálft sannleikans í þessum efnum. Ef kröfur ríkisins verða færri verða kröfur þær sem gerðar verða til bankanna fjölbreyttari. Það er mikilvægt að leyfa ólíkum hugmyndum um áhættu og reglur að njóta sín. Þess vegna þurfa reglurnar að koma frá neytendum, án þess að ríkið beiti valdi sínu. Er hægt að meta hvort reglur eru góðar á skilvirkan hátt ef allir fara eftir sömu reglum?
Ábyrgðarkver kostar kr. 2.990 í Bóksölu Andríkis. Heimsending innanlands er innifalin í verðinu. Bókin er fallega innbundin og fín tækifærisgjöf, hvort sem er til fermingarbarns með fullar hendur gjafafjár frá öldruðum ættingjum eða sjötugs afmælisbarns sem telur að fermingarbarnið sem væntanlegur skattgreiðandi eigi að bera ábyrgð á sparisjóðsbókum annarra. Pantanir sem berast fyrir kl. 16 í dag verða póstlagðar í dag og því góðar líkur á að þær þær berist í póstlúgu viðtakanda á morgun og þar með fyrir páskahelgina.